*

Veiði 21. maí 2017

Veiðir með tröllunum

Stefán rekur fyrirtækið Iceland Outfitters ásamt eiginkonu sinni Hörpu Hlín en þau tóku nýlega Leirá á leigu.

Trausti Hafliðason

Hjónin Stefán Sigurðsson og Harpa Hlín Þórðardóttir stofnuðu fyrirtækið Iceland Outfitters í lok árs 2014. Áður störfuðu þau hjá Lax-á, einu stærsta fyrirtæki á íslenska veiðimarkaðnum.

Iceland Outfitters er ferðaþjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í veiðiferðum en stór hluti viðskiptavinanna eru útlendingar. Spurður hvernig reksturinn hafi gengið svarar Stefán: „Þetta hefur gengið mjög vel, eiginlega eins vel og við ætluðum að láta þetta ganga. Við byrjuðum smátt en höfum stækkað, veltan hefur aukist um 100% á milli ára."

Með tvær ár á leigu

Iceland Outfitters er í dag með tvær ár á leigu en það er Leirá í Leirársveit á Vesturlandi og Skjálfandafljót fyrir norðan.
Stefán er fæddur á Húsavík og ólst að stærstum hluta upp á Akureyri. Skjálandafljótið er honum mjög kært því þar veiddi hann mikið sem ungur maður. Veiðin í Skjálfafljóti hefst 18. júní og stendur til 18. september.

"Þarna er maður að veiða með tröllunum. Náttúran er tröllvaxinn á þessum slóðum og áin stór og mikil. Það er mjög góð meðalveiði í Skjálfanfljóti eða um 600 laxar á ári. Veiðileyfin eru ábyggilega ein þau ódýrustu á landinu miðað við það hvað meðalveiðin er góð. Dýrasti dagurinn kostar 35.800 krónur."

Stefán segir að enn sem komið sé fylgi ekkert veiðihús með Skjálfandafljóti en verið sé að vinna í þeim málum. Þá segir hann að í ánni sé ekki bara lax heldur einnig sjóbirtingur og sjóbleikja. Stefán segir að salan hafi farið nokkuð vel af stað og að það séu mikið til Íslendingar sem sæki í Skjálfandafljótið.

Lax í Leirá

Leirá er tveggja stanga á og þar veiðist bæði sjóbirtingur og lax. Stefán segir að töluvert hafi verið um flóð í ánni í vor en sjóbirtingsveiðin hafi verið ágæt þá daga sem veitt hafi verið.

"Þetta er svolítið skemmileg á og það fylgir veiðihús með. Laxveiðitímabilið hefst 10. júlí og það getur verið glettilega góð veiði þegar líður á haustið. Áin var lengi leigð til einkaaðila þannig að ég er ekki með miklar upplýsingar um veiðitölur. Veiðisvæðið er hátt í fimm kílómetra langt með ríflega tuttugu merktum veiðistöðum. Tvær stangir kosta á bilinu 30 til 50 þúsund á dag og veiðihúsið fylgir að sjálfsögðu með í kaupunum."

Iceland Outfitters var um tíma með Hróarslæk á sínum snærum en það er á skammt austan megin við Hellu. Stefán segir að eftir að ákveðið hafi verið að hætta ræktun í Hróarslæk hafi þau hætt að selja leyfi. "Það var sjálfhætt," segir hann.

Bjartsýnn fyrir sumarið

Það er ekki hægt að sleppa Stefáni öðruvísi en að spyrja hann úti það hvaða væntingar hann hafi til laxveiðinnar í sumar. "Ég mjög bjartsýnn á góða smálaxaveiði. Vorið í fyrra var mjög gott og hlýtt og ég trúi því það hafi mikill fjöldi seiða skilað sér úr ánum. Ég þori samt litlu að spá um stórlaxaveiðina. Maður vonar bara hið besta."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.