*

Veiði 1. apríl 2017

Veigamiklum spurningum ósvarað

Skipulagsstofnun telur að 13 hektara landfylling við Elliðaárvog geti haft varanleg og óafturkræf áhrif á laxastofninn í Elliðaánum.

Trausti Hafliðason

Stefnt er að byggja 5.100 til 5.600 nýjar íbúðir á Ártúnshöfða og við Elliðaárvog. Með þessari nýju byggð verður til 12.600 manna hverfi. Gert er ráð fyrri því að hluti byggðarinnar verði á 13 hektara landfyllingu við voginn eða þeim stað þar sem fyrirtækið Björgun ehf. er með starfsemi.

Fyrirhuguð landfylling er skammt frá ósum Elliðaánna, sem er ein besta laxveiðiá landsins. Í fyrra voru Elliðaárnar í 21. sæti yfir ár, sem voru með flesta laxa á stöng og árið 2015 í 14. sæti.

Skipulagsstofnun birti fyrir tæpum tveimur vikum álit um mat á umhverfishrifum landfyllingarinnar. Þeir þættir sem teknir eru til umfjöllunar eru ásýnd landfyllingarinnar, áhrif á botnset, botngerð og botndýralíf, strauma, fuglalíf og samfélagið. Langstærsti kaflinn í álitinu fjallar um hugsanleg áhrif landfyllingarinnar á laxfiska í Elliðaánum.

Að mati Skipulagsstofnunar getur landfyllingin við Elliðaárvog haft varanleg og óafturkræf áhrif á laxastofninn í Elliðaánum. Í áliti um mat á umhverfisáhrifum segir að veigamiklum spurningum sé enn ósvarað og því þurfi að rannsaka ósasvæðið betur. Hún telur þó í lagi að hefja framkvæmdir við fyrsta áfanga af þremur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Elliðaár  • stangaveiði  • laxveiði  • lax  • Skipulagsstofnun  • landfylling  • Elliðaárvogur