*

Sport & peningar 5. september 2019

Veislan að hefjast

NFL-deildin hefst á miðnætti með leik Green Bay og Chicago — fjögur lið eru talin líklegust til stórræða í vetur.

Trausti Hafliðason

 

Nýtt tímabil í ameríska fótboltanum hefst laust eftir miðnætti þegar Chicago Bears taka á móti Green Bay Packers. Bears er spáð ágætis gengi í vetur. Flestir fjölmiðlar vestanhafs birta styrkleikalista (e. Power Ranking) áður en tímabilið hefst og telja bæði ESPN og NFL.comBears séu með 7. besta lið deildarinnar en miðlarnir setja Packers í 15. sætið.

ESPN og NFL. com telja að ríkjandi meistarar, New England Patriots, séu með besta lið deildarinnar. Óhætt er að segja að Patriots, með leikstjórnandann Tom Brady í broddi fylkingar, hafi átt góðu gengi að fagna síðustu ár. Á síðustu fimm leiktíðum hefur liðið fjórum sinnum farið í Super Bowl og þrisvar sigrað. Það er ekki síst merkilegt fyrir þær sakir að Brady er ekkert unglamb lengur. Hann varð 42 ára í byrjun ágúst.

Fjögur lið munu berjast

Mörgum sérfræðingum þykir ESPN og NFL.com vera frekar íhaldssamir í vali sínu á bestu liðum deildarinnar. Þannig eru fjölmargir sem spá því að New Orleans Saints og Kansas Chiefs muni hampa titlinum að þessu sinni. Saints leggja traust sitt einnig á reynslumikinn leikstjórnanda en það er hinn fertugi Drew Brees. Chiefs eru aftur á móti með langefnilegasta leikstjórnanda deildarinnar í sínum röðum en það er „undrabarnið“ Patrick Mahomes, sem skaust upp á stjörnuhimininn á síðustu leiktíð.

Almennt eru bandarísku miðlarnir sammála um að fjögur lið muni berjast um titilinn á komandi tímabili. Auk Patriots, Saints og Chiefs þykir Los Angeles Rams líklegt til stórræða. Rams spilaði til úrslita í Super Bowl í febrúar síðastliðnum en laut í lægra haldi fyrir Patriots.

Hvað gerir Cleveland?

Fyrir áhugamenn um NFL verður líka mjög fróðlegt að fylgjast með gengi Cleveland Browns, sem allt þar til í fyrra var gólfmotta deildarinnar. Allt í einu á Cleveland eitt áhugaverðasta lið deildarinnar. Þar eru leikmenn eins og leikstjórnandinn Baker Mayfield, sem var valinn númer eitt í nýliðavalinu í fyrra og stóð sig nokkuð vel á sinni fyrstu leiktíð. Einnig má nefna Nick Chubb, sem er mjög spennandi hlaupari (e. running back) og síðast en ekki síst útherjinn (e. wide reciever) Odell Beckham Jr., sem Browns fékk frá New York Giants á þessu ári.

Hræringar á markaðnum

Langt er síðan jafnmiklar hræringar hafa verið á leikmannamarkaðnum og fyrir þetta tímabil. Fjölmargar stjörnur hafa skipt um lið. Auk Beckhams má nefna að útherjinn Antonio Brown fór frá Pittsburgh Steelers til Oakland Raiders. Hlauparinn Le’Veon Bell, fór frá Steelers til New York Giants. Leikstjórnandinn Nick Foles, sem leiddi Philadelphia Eagles til sigurs í Super Bowl á þarsíðustu leiktíð og var valinn MVP úrslitaleiksins, er kominn til Jacksonville Jaguars. Einnig má nefna að hlauparinn Kareem Hunt er nú á mála hjá Cleveland Browns. Hunt var samningsbundinn Kansas Chiefs á síðustu leiktíð en þeir riftu samningnum við hann eftir að myndband, sem sýndi hann ýta og sparka í konu inni á hóteli, var birt í fjölmiðlum. Hunt verður í banni fyrstu átta leiki nýs tímabils.

Super Bowl í Miami

Tímabilinu í ameríska fótboltanum lýkur sunnudaginn 2. febrúar þegar 54. úrslitaleikur NFL-deildarinnar (Super Bowl LIV) fer fram. Að þessu sinni fer leikurinn fram á Hard Rock-vellinum í Miami, heimavelli Miami Dolphins. Völlurinn, sem var byggður árið 1985, var tekinn í gegn fyrir fjórum árum. Þá var lúxus-sætum fjölgað og tveir risaskjáir settir upp. Eftir breytingarnar tekur völlurinn 65 þúsund manns í sæti en áður tók hann 75 þúsund í sæti.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: NFL  • NFL-deildin