*

Veiði 19. apríl 2015

Veislan á Þingvöllum að hefjast

Á morgun hefst veiði í Þingvallavatni. Þeir veiðimenn sem ekki virða veiðireglur eiga á hættu að vera kærðir til lögreglu.

Trausti Hafliðason

Veiði hófst í fjölmörgum vötnum í byrjun mánaðarins og næstu daga opnar hvert vatnið á fætur öðru. Veiði í Kleifarvatni hófst í vikunni og veiði í Þingvallavatni og Elliðavatni er um það bil að hefjast.

Ingimundur Bergsson, framkvæmdastjóri Veiðikortsins, segir að vatnaveiðin hafi farið frekar rólega af stað að þessu sinni enda hafi verið frekar kalt í veðri. Hann segist aftur á móti nokkuð bjartsýnn á góða veiði í sumar. Ingimundur stofnaði Veiðikortið árið 2005 en frá þeim tíma hefur kortinu vaxið fiskur um hrygg og í dag veitir það aðgang að 38 veiðivötnum víðs vegar um landið. Ingimundur á helmingshlut í Veiðikortinu á móti Stangaveiðifélagi Reykjavíkur.

„Meðalfellsvatn, sem yfirleitt er frekar gott þegar það er opnað 1. apríl, var meira og minna ísilagt og þar var aðeins hægt að veiða á smá frímerki við Sandárósinn," segir Ingimundur. „Aðstæður við vatnið hafa hins vegar batnað töluvert undanfarna daga og bara tímaspursmál hvenær veiðin dettur í gang.

Byrjunin var líka róleg fyrsta daginn í Vífilsstaðavatni en síðan kom hvellur í kringum 4. apríl og brjáluð veiði. Bleikjan var í miklu tökustuði og menn fengu ansi væna og vel haldna fiska."

Rosalegt veiðivatn

Á morgun hefst veiði í einu magnaðasta veiðivatni veraldar, Þingvallavatni. Þar eru fjórar tegundir af bleikju og einn stærsti urriðastofn í heimi, stærsti í þeirri merkingu að meðalþyngd urriðanna er mjög mikil. Á hverju ári veiðast urriðar sem eru 20 pund eða þyngri.

„Þetta er annað árið sem Þingvallavatn er opnað 20. apríl. Áður var það alltaf opnað 1. maí. Fram til 1. júní er aðeins heimilt að veiða á flugu og veiðimönnum ber að sleppa öllum urriða. Ef menn gera það ekki geta þeir átt á hættu að verða einfaldlega kærðir til lögreglu.

Í fyrra var algjör veisla í Þingvallavatni. Veiðimenn voru að fá alveg svakalega urriða strax í byrjun og út allan maí. Ég myndi óhikað segja að Þingvallavatn væri besta náttúrulega veiðivatnið okkar. Jafnvel þó við værum bara með bleikjuna þá væri vatnið geggjað en við erum líka með boltaurriða og það gerir þetta að alveg rosalegu veiðivatni — í heimsklassa."

Á fimmtudaginn, sumardaginn fyrsta, hefst veiði í Elliðavatni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.