*

Veiði 17. nóvember 2014

Veisluborð veiðimannsins

Á heimilum veiðimanna eru matarvenjurnar á jólahátíðinni ólíkar því sem gengur og gerist.

Trausti Hafliðason

Bjarni Júlíusson, sem um árabil var formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur, er þekktur veiðimaður. Hann stundar bæði skot- og stangveiði af miklum krafti og þótt hann búi í borginni í dag er hann alinn upp í Grundarfirði á Snæfellsnesi.

„Pabbi var mikill veiðimaður og ég er alinn upp við það að veiða og borða bráðina, hvort sem um er að ræða lax, silung, fugl eða hreindýr,“ segir Bjarni. „Auðvitað virðir maður allar reglur og það er sjálfsagt að sleppa fiski þar sem farið er fram á slíkt en maður þarf nú líka að fá að taka hann í pottinn.“

Bjarni segir að veiðiárið byrji með vatnaveiðinni á vorin og eftir hana taki laxveiðin við. „Við borðum mikið af silungi og laxi á mínu heimili og er fiskurinn steiktur, grillaður, bakaður eða soðinn. Síðan reyki ég og gref líka. Ég er með reykkofa við sumarbústaðinn minn í Stóra-Langadal þar sem ég hef kaldreykt en eftir að ég kynntist Gylfa Yngvasyni á Skútustöðum hef ég nú bara látið hann reykja fyrir mig enda algjör snillingur. Hann taðreykir með gamla laginu og gerir það listavel. Það besta sem ég fæ hjá Gylfa eru sauðalærin. Hann taðreykir þau og á mínu heimili erum við löngu hætt að borða annað hangikjöt yfir jólin. Ég fæ líka stífreykt læri hjá honum sem maður borðar hrátt og er algjört lostæti — herramannsmatur sem fer einstaklega vel með þessum þungu jólabjórum.“

Nánar er spjallað við Bjarna í Jólagjafahandbókinni sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.