*

Menning & listir 3. febrúar 2019

Veislustjóri þarf að sýna auðmýkt

Dóri DNA segir algengt að veislustjórinn fái skammirnar fari eitthvað úrskeiðis, en þá sé mikilvægt að taka því ekki persónulega.

Sindri Freysson

Árshátíðir, þorrablót, jólagleði og hvers kyns mannfögnuðir á vegum fyrirtækja til að þjappa starfsfólkinu saman og verðlauna það fyrir góðan árangur eru samkomur sem bjóða upp á að mistakast hryllilega. Of miklar væntingar, ofdrykkja, óleyst vandamál á milli starfsmanna, misheppnuð skemmtiatriði og fleiri ófyrirséðir hnökrar geta sett allt í uppnám á augabragði. En þessar samkomur geta líka verið endurnærandi fyrir starfsandann og þá skiptir miklu að vel sé haldið á spöðunum. Góður veislustjóri getur gert kraftaverk.

Ákveðin kúnst að vera veislustjóri

Frekar hörð samkeppni virðist um þessi verkefni ef marka má það sem sjóaðir veislustjórar segja, en flestir hinna reyndari og þekktari virðast samt hafa nóg að gera. Ýmsir leikarar, skemmtikraftar, uppistandarar, sjónvarpsfólk og fleiri sinna veislustjórn og virðast flestir vera í eftirspurn frekar en hitt og hafa ágætt upp úr þessu sumir hverjir. „Ef menn virkilega bera sig eftir þessu og leggja mikinn metnað í þetta getur þetta verið ágætis búbót, en ég viðurkenni að eftir tíu ár í starfi kann maður alltaf betur og betur að meta kvöldin heima með fjölskyldunni,” segir Halldór Laxness Halldórsson, betur þekktur sem Dóri DNA og einn meðlima uppistandshópsins Mið-Íslands.

Dóri DNA segir að fyrstu skemmtanir Mið-Íslands hafi verið á veitingastöðunum Prikinu og Caramba og skömmu eftir það skemmti hann á samkomu hjá íþróttafélaginu Þrótti. „Fljótlega eftir það byrjaði ég að fast við veislustjórn og síðan óx þetta jafnt og þétt,“ segir hann. „Maður komst fljótlega að því að það er ákveðin kúnst að vera veislustjóri og það þarf ákveðið æðruleysi í það starf. Frumskilyrði er auðvitað að vera hress og skemmtilegur og vera tilbúinn til að taka því sem að höndum ber. Það getur verið allur gangur á veislum og stundum er dagskráin laus í reipunum og þá getur verið gott að kunna t.d. á gítar til að keyra upp stemninguna. En ég spila því miður ekki á gítar og þarf þá að gera eitthvað annað.

Ef virkilega í harðbakkann slær hjá mér hef ég skellt mér í að rappa eins og ég gerði í gamla daga, en manni líður nú eiginlega eins og maður hafi étið úldna samloku eftir það. Það versta auðvitað er að ef stemningin í veislunni er almennt séð léleg liggur beinast við að kenna veislustjóranum um það, og það er kannski erfiðasta lærdómskúrfan; að taka því ekki persónulega þegar það gerist. Einhvern veginn er allt veislustjóranum um að kenna sem fer úrskeiðis. En sem betur fer gerist það mjög sjaldan.“

 

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Fundir & ráðstefnur, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér