*

Matur og vín 10. október 2012

Veitingarýni: Aspas fjarri skarkala heimsins

Hótel Djúpavík er yndislegur staður þar sem natni er í hverju skoti. Hver munnbiti eru í fullkomnu samræmi við fallegt landslag.

Djúpavík á Ströndum er ævintýri líkust. Þangað komum við fjórir saman, þrjár kynslóðir af feðgum á leið okkar frá Hólmavík á sólríkum degi í júlí. Djúpavík var sem leiksvið úr hugarfylgsnum Hrafns Gunnlaugsonar: Brúnn gegnumryðgaður dallur hálfur upp á strönd undir mannlausri, hvítmálaðri síldarverksmiðju frá fjórða áratugi síðustu aldar, græn knippi af hvönn á stangli ristu landslagið.

Við komum að hótelinu um tvöleytið og viðtökurnar voru góðar. Í fyrstu þrepunum tókum við eftir natninni í garðinum, í dyragættinni fundum við fyrir hlýju í hverjum nagla. Fátt var í boði um þetta leyti dags. Við gátum valið á milli helstu bita. Við fórum aspasleiðina; völdum tvær ristaðar samlokur með skinku, osti og aspas ásamt súpu - með aspas. Samlokan var hefðbundin en safarík. Súpan í saltara lagi. En það var ekki maturinn sem slíkur sem við sóttumst eftir heldur andrúmsloftið. Tilfinningin var góð. Svarthvítar myndir frá fyrri tíð á veggjum opnuðu glugga inn í horfinn heim, bókaskápur með einkennilegu samansafni bóka og barnaspilum gerði það að verkum að okkur fannst við komnir inn á einkaheimili. Þægileg og létt stemning smitaði út frá sér.

Ástleitni pars nokkrum borðum frá okkur jókst eftir því sem á leið. Það horfði í augu sama kyns yfir frönskum. Um tíma virtist kokteilsósan ætla að leysa af þeim allar hömlur. Samlokurnar voru í þykkari kantinum, of stórar fyrir smástráka á leik- og grunnskólaaldri. Við feðgarnir drógum þá að landi. Eftir um klukkustund yfirgáfum við Hótel Djúpuvík, tveir pakksaddir, drengirnir hvor með sinn frostpinnann. Allir sáttir.