*

Matur og vín 27. janúar 2013

Veitingarýni: Djúpsteikt epík

Hádegisverðurinn skilar því að Fiskifélagið fær fullt hús stiga hjá Viðskiptablaðinu.

Það gleymist oft þegar vinnufélagar deila um hvar skuli snæða í hádeginu að fjölmargir „betri“ staðir bjóða upp á mun ódýrari hádegismatseðil en það sem er í boði á kvöldin. Þegar þetta er haft í huga er ekki hjá því komist að það er hægt að fara út að borða fyrir svipaðan pening og það kostar að fara og fá sér sveittan hamborgara á einhverri vel valinni búllu.

Einn slíkur staður er Fiskifélagið að Vesturgötu, en þar má til að mynda fá 14 bita nigiri og maki-blöndu fyrir um 2.000 krónur og svokallað franskt sushi þegar þrjú hundruð krónum er bætt við. Það er ekki slæmt þegar tekið er tillit til þess að þetta er einn af betri veitingastöðum í Reykjavík og hvað þá af þeim sem einbeita sér að sjávarmeti. Allt útlit og þjónusta er til fyrirmyndar og þægileg stemning á staðnum í hádeginu. Túnfiskurinn og laxinn voru óaðfinnanlegir í franska sushi-inu sem varð fyrir valinu. Það sem lyfti hádegisverðinum á Fiskifélaginu upp á hærri stall var aftur á móti litlu hlutirnir og það sem maður gerir kannski ekki ráð fyrir að fá þegar maður dettur inn á eitthvað sem kalla mætti hádegistilboð. Djúpsteikti humarinn var til að mynda frábær og þá er gott að geta nartað í smá wakame með öðrum bitum. Þá er ávallt boðið upp á gott nýbakað brauð áður en maturinn er borinn fram.

Fyrir hádegisverðinn fær sushi-ið á Fiskifélaginu fullt hús stiga. Næsta skref er þá væntanlega að sjá hvort staðurinn standist æðri kröfur að kvöldi til.