*

Matur og vín 22. september 2013

Veitingarýni: Falinn fjársjóður á Vox bar

Litlu atriðin setja Vox bar á Hilton Reykjavík Nordica í sérflokk.

Vox bar á Hilton Reykjavík Nordica er falinn fjársjóður fyrir þau sem vilja alvöru mat. Flestir fara þangað fyrir happy hour þar sem boðið er upp á 50% afslátt af öllum drykkjum alla daga á milli klukkan fimm og sjö. En það sem færri kannski átta sig á er að á barnum er hægt að fá dýrindis mat sem er vel útilát­inn, á góðu verði og kærkomin tilbreyting frá þeim endalausu smáréttastöðum sem opna vikulega um alla borg þar sem lítil undirskál af tveimur munnbitum kostar tvö þúsund krónur.

En aftur að dýrðinni sem Vox bar er. Öll almennileg hótel eiga að bjóða upp á góðar klúbbsamlokur og Vox bar klikkar ekki þar. Samlokan er ljúf­feng og á heimsmælikvarða.

Sesarsalatið er frábært og safaríkt. Og hamborgarinn er með betri borgurum Reykjavíkur. Á matseðlinum eru einnig dýr­indisréttir fyrir börnin. Þjónustan er yndisleg og áreynslulaus. Stórar tauservéttur, þung hnífapör og fallegar litlar krukkur með mæjónesi, sinnepi og tómatsósu fylgja sumum réttunum.

Það eru þessi litlu atriði sem setja barinn í sérflokk. Sjálf stemningin er síðan skemmtileg og ljúf. En hvað í lífinu þarf maður meira en litlar krukkur af sósum, góða þjónustu, almennilegan mat og áfengi á tilboði?

Stikkorð: Nordica  • Vox  • Vox bar