*

Matur og vín 12. ágúst 2012

Veitingarýni: Vingjarnlegur Völli

Veitingahúsið Pallurinn á Húsavík er skemmtilegur og vingjarnlegur staður. Þar fæst góður matur á sanngjörnu verði.

Það er alltaf ákveðin stemning að koma á höfnina á Húsavík, þá sérstaklega þegar veðrið er gott. Hvalaskoðun kemur eflaust fyrst upp í hugann hjá mörgum en bryggjan á staðnum iðar af lífi stóran hluta ársins. Það eru líka fjölmargir veitingastaðir á bryggjunni og úr nógu að velja.

Sjónvarps- og verðlaunakokkurinn Völundur Snær Völundarson, oft kallaður Völli Snær, hefur opnað nýjan stað við höfnina sem kallast því einfalda nafni Pallurinn. Til gamans má geta þess að Völundur er fæddur og uppalinn í Aðaldal, rétt fyrir innan Húsavík. Pallurinn er uppi á þaki björgunarsveitahússins og býður því upp á skemmtilegt útsýni yfir höfnina.

Einfaldur seðill

Það fyrsta sem mætir gestum er stórt grill sem er sérsmíðað af Stálnausti fyrir staðinn. Grillið tekur heilan lambaskrokk, sem er nokkuð mögnuð sjón að sjá. Pallurinn er allur undir tjaldi, sem gerir hann vissulega sérstakan en á sama tíma skemmtilegan. Í raun má segja að það séu þrír réttir á matseðlinum, fiskur dagsins, lambaloka og ljúffengur nautakjötsréttur. Hugsanlega of einfalt til að vera satt.

Allt eru þetta fyrirmyndarréttir og verðið sæmilegt. Hádegismatur fyrir tvo fullorðna og eitt barn kostar um 4.500 kr.

Ekki útpældur staður

Pallurinn ber þess merki að vera settur upp í skyndi. Sem fyrr segir er hann allur undir tjaldi, stólarnir og borðin virðast koma héðan og þaðan og matseðillinn sjálfur virðist ekki endilega vera útpældur. Þetta þarf þó ekki að vera staðnum til lasts, þvert á móti skapar þetta ákveðna stemningu og vingjarnlegt andrúmsloft.

Það sem helst má finna að staðnum er tvennt; úrvalið á matseðlinum er ekki mikið og þá sérstaklega úrvalið fyrir börn. Þeir barnaréttir sem eru í boði eru þó settir upp með skemmtilegum hætti.

Sérsmíðað grill fyrir Pallinn á Húsavík sem tekur heilan lambaskrokk.