*

Matur og vín 13. júlí 2013

Veitingastaðurinn Noma: Næstum bestur

Skiptar skoðanir eru á matnum sem þykir orðinn full skrautlegur og tilgerðarlegur.

Veitingastaðurinn Noma þykir meðal bestu veitingastaða í heiminum í dag. Staðurinn er á Íslandsbryggju í Kaupmannahöfn.

Þeir sem hafa farið á staðinn reglulega á síðustu árum hafa tekið eftir því að matreiðslumeistararnir hafa gerst djarfari með hverju árinu. Það er kannski ekki að furða, því þótt staðurinn hafi verið þrívegis valinn besti veitingastaður í heimi af fagtímaritinu Restaurant, og vermir í dag 2. sætið, þá horfa flestir til Frakklands þegar fella á dóma yfir veitingahúsum.

„Aðeins“ með tvær Michelin stjörnur

Nánar tiltekið til franska dekkjaframleiðandans Michelin sem aðeins hefur gefið staðnum tvær Michelin stjörnur, af þremur mögulegum. „Aðeins“ fyndist eflaust flestum ofmælt en Dönum er ekki skemmt. Danska viðskiptablaðið Börsen sagði í fyrirsögn í fyrra að Noma hefði verið svikið um þriðju stjörnuna. Viðskiptablaðið fjallaði um málið.

Margir skilja hins vegar stjörnuvalið og Noma hafa mistekist á leiðinni til fullkomnunar. Maturinn er farinn að minna meira á skraut en mat.

Í það minnsta eru sumir réttirnir orðnir of tilgerðarlegir. Í haust var lifandi rækja og mosi á matseðlinum.

Rækjan, sem var lítil, gat tekið upp á því að stökkva upp úr krúsinni gestum til lítillar gleði. Aðspurðir sögðu þjónarnir að meirihluti gestanna borðaði að jafnaði réttinn þrátt fyrir spriklið. Efast má um þau orð.

Mosinn var bragðlítill og óspennandi.

Það er þó hægt að mæla með Noma. Umhverfið er fallegt, staðurinn látlaus og staðsetningin skemmtileg.

Aðeins einn matseðill er í boði þar sem hver réttur er ákveðinn af kokkinum. Réttirnir eru 20 talsins og kostar matseðillinn rúmar 30 þúsund íslenskar krónur eða 1.500 danskar krónur.

Stikkorð: Noma