*

Bílar 5. febrúar 2013

Vel búinn og stór Malibu

Útlitshönnun Malibu byggir að hluta til á hinum goðsagnakennda Camaro sem margir bílaáhugamenn þekkja.

Róbert Róbertsson

Nú er kominn til landsins Chevrolet Malibu með tveggja lítra dísilvél sem afkastar 160 hestöflum og hefur 350 Nm hámarkstog. Bíllinn er boðinn sjálfskiptur og hlaðinn staðalbúnaði.

Margir hafa beðið eftir að Malibu byðist hér með dísilvél enda státar hann í þeirri gerð af einkar lágri eldsneytiseyðslu sem samkvæmt Evrópustöðlum er 6 lítrar á hundraðið í blönduðum akstri. Útlitshönnun Malibu byggir að hluta til á hinum goðsagnakennda Camaro sem margir bílaáhugamenn þekkja. Þetta er rúmgóður bíll og yfirbygging hans einkennist af kraftalegum formlínum.

Mikið pláss í skottinu

Malibu er stór, fimm manna fólksbíll, 4,86 metrar á lengd. Hann býður upp á stórt farangursrými sem með sæti í uppréttri stöðu er 545 lítrar. Í amerískri hasarmynd, sem maður sæi bílinn alveg fyrir sér í, myndi hann líklega rúma þrjú lík í skottinu.

Í staðalgerð kemur hann hlaðinn búnaði. Þar má nefna hluti eins og lyklalaust aðgengi og ræsihnapp, leðurklædd sæti, rafknúna topplúgu, rafknúin sæti með minni, bakkskynjara, Xenon aðalljós, 18" álfelgur, hita í framsætum, regnskynjara og margt fleira. Upplýsinga- afþreyingarkerfi bílsins fylgir 7" snertiskjár í lit, níu hátalarar, Bluetooth tenging ásamt tengingum fyrir Aux, SD og USB. Chevrolet Malibu kostar 5.990.000 kr. en bíllinn er einmitt kynntur hjá Bílabúð Benna um þessar mundir.

Stikkorð: Bílar  • Chevrolet Malibu