*

Bílar 23. nóvember 2019

Vel heppnaður jepplingur

Kia XCeed var kynntur bílablaðamönnum fyrir skömmu og kemur í fyrstu með 1L og 1,4L bensínvélum.

Róbert Róbertsson

XCeed er borgarjepplingur eða svokallaður crossover eins og það útleggst á ensku og afar sportlegur í útliti. XCeed er raunar mjög vel heppnaður í hönnun. Framsækin og djörf hliðarlínan nær allt frá framstuðara að afturhlera. Framendinn er mjög flottur með laglega hönnuð LED ljósin og tígrisnefið er á sínum stað sem ættarmerki Kia. Afturendinn er að mínu mati mjög fallegur þar sem spilar saman laglega hönnuð þrívíddar LED afturljós og vel útfærð hönnun á afturhlera og stuðara. Bíllinn er hannaður í hönnunarmiðstöð Kia í Frankfurt í Þýskalandi undir handleiðslu Gregory Guillaume, aðstoðarforstjóra hönnunardeildar Kia Motors í Evrópu.

Mikilvægur bíll fyrir Kia
Xceed er mjög mikilvægur bíll fyrir Kia í ört stækkandi jepplingaflórunni sem er sífellt vinsælli meðal kaupenda um allan heim. Þetta er jú sá flokkur sem flestallir bílaframleiðendur eru að keppast við að vera með í. Og Kia hefur sannarlega tekist vel til með þennan nýja bíl því þetta er einn fallegasti bíll suður-kóreska bílaframleiðandans og kemur sterkur inn í jepplingaflokkinn. Kia hefur komið fram með marga mjög vel hannaða bíla á undanförnum árum sem hafa sópað til sín alþjóðlegum hönnunarverðlaunum. Það verður að teljast frekar líklegt að þessi nýi XCeed muni skora hátt í þeirri deild og ekki ólíklegt að hann bæti við verðlaunum í safnið.

Ökumaður hefur góða yfirsýn
Hinn nýi XCeed er eins og nafnið gefur til kynna byggður á hinum vinsæla fólksbíl Kia Ceed en XCeed er auðvitað hærri og stærri en hlaðbakurinn Ceed og býður upp á meira pláss fyrir fólk og farangur. Bíllinn er með með 184 mm veghæð og ökumaður hefur því góða yfirsýn. Umgengni um bílinn er góð og ökumaður og farþegar sitja hátt í bílnum. Bíllinn er ágætlega rúmgóður að innan fyrir ökumann og fjóra farþega. Bíllinn er með 426 lítra farangursrými með aftursætin uppi sem er eitt það besta sem gerist í þessum stærðarflokki bíla.

Mikið er lagt í innanrýmið í XCeed sem er vandað og prýðilega búið í efnisvali og þægindum. Hægt er að fá sérlega sportlegan gulan innanrýmispakka sem kemur töff út í þessum bíl og passar honum vel. XCeed er einn tæknivæddasti bíllinn í sínum flokki og má þar nefna 10,25“ upplýsingaskjá og 12,3“LCD mælaborð. Hvort tveggja tryggir ökumanni og farþegum snjalltækni af margvíslegu tagi bæði hvað varðar afþreyingu og sjálfan aksturinn.

Spræk 1,4 lítra bensínvél
XCeed er fyrst fáanlegur með 1,4 lítra og 1,0 lítra bensínvélum hér heima samkvæmt upplýsingum frá Öskju, umboðsaðila Kia á Íslandi. Bíllinn er framhjóladrifinn og með 1,4 lítra vélinni kemur bíllinn með 7 þrepa DCT sjálfskiptingu en með minni vélinni er hann beinskiptur. Stærri bensínvélin er mjög spræk og skilar bílnum 140 hestöflum og togið er 242 Nm. Bíllinn er 8,6 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Hámarkshraðinn er 200 km/klst. Eldsneytiseyðslan er uppgefin 6,2 lítrar á undraðið samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda og CO2 losunin er 142 g/km.

Minni bensínvélin skilar 120 hestöflum og 172 Nm í togi. Í þeirri útfærslu er bíllinn 10,9 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Kia  • Xceed