*

Bílar 13. október 2015

Vel heppnaður og vinsæll Kia cee´d

Kia cee´d hefur fengið andlitslyftingu og var frumsýndur með breyttu sniði á bílasýningu í Frankfurt.

Kia cee’d er í svokölluðum C-stærðarflokki sem er fjölmennur og vinsæll og etur hann þar kappi við Volkswagen Golf, Ford Focus, Toyota Auris og Mazda 3 svo nokkrir séu nefndir. Þetta er þriðja kynslóð cee’d en bíllinn hefur verið framleiddur frá árinu 2006.

Kia fagnaði þeim áfanga nýverið að hafa selt yfir eina milljón eintaka af cee’d þannig að ljóst er að bíllinn nýtur velgengni um víðan völl. Kia cee’d er reyndar önnur söluhæsta gerð Kia í Evrópu á eftir hinum vinsæla Sportage sportjeppa. Markaðssetning á fyrstu kynslóð cee’d árið 2006 markaði á margan hátt nýtt upphaf fyrir suður-kóreska bílaframleiðandann. Þetta var fyrsti bíll Kia sem var hannaður og smíðaður í Evrópu eingöngu fyrir evrópskan markað. Framleiðslan fer fram í hátæknivæddri verksmiðju Kia í Zilina í Slóvakíu. 

Betri aksturseiginleikar og fjöðrun

Breytingarnar á Kia cee’d nú eru ekki svo miklar enda hefur hefur Kia þótt ná fram fallegri hönnun á bílunum á undanförnum misserum. Þáttaskil urðu þegar Þjóð- verjinn Peter Schreyer gekk til liðs við Kia en hann hafði verið aðalhönnuður hjá þýsku bílaframleiðendunum Volkswagen og Audi.

Segja má að Schreyer sé að öðrum ólöstuðum maðurinn á bak við velgengni Kia alltént á hönnunarsviðinu. Mest áberandi útlitsbreytingin á Kia cee’d er ný hönnun á þokuljósunum á svuntunni. Innréttingin er lagleg og hefur verið betrumbætt og þá fyrst og fremst í betra efnisvali en áður. Þá er komin ný 1,0 lítra vél og ný sjálfskipting. Það fannst einnig í reynsluakstrinum í Slóvakíu að fjöðrunin hefur verið bætt sem og aksturseiginleikarnir.

Bíllinn er mjög ljúfur og þægilegur í akstri. Það kom á óvart hversu góður hann var og þá sérstaklega þegar ekið var greitt eftir hraðbrautunum. Stýringin var mjög góð og það var líka eftirtektarvert að bíllinn er hljóðlátari en áður, bæði hvað varðar veg- og vindhljóð.

Nánar var fjallað um málið í Bílablaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.