*

Bílar 9. desember 2018

Veltir opnar með pomp og prakt

Stórsýning á Volvo vinnubílum- og tækjum var haldin þegar nýjar höfuðstöðvar Veltis voru opnaðar.

Róbert Róbertsson

Nýjar höfuðstöðvar Veltis, Volvo atvinnutækjasviðs Brimborgar, voru opnaðar með pomp og prakt að Hádegismóum 8 í Árbæ á dögunum. Þá var einnig haldin stórsýning á Volvo atvinnubílum og atvinnutækjum.

Nýtt húsnæði Veltis er glæsilegt og sérhannað fyrir þjónustu við Volvo atvinnubíla og atvinnutæki með það að markmiði að bjóða upp á sem allra besta þjónustu við viðskiptavini og þægilega aðkomu. Í húsakynnunum er eitt best tækjum búna verkstæði landsins ásamt fullkomnu vöruhúsi og bestu mögulegu vinnuaðstöðu fyrir starfsfólk. Staðsetningin að Hádegismóum 8 er mjög góð í útjaðri Reykjavíkur þar sem aðgengi frá stofnbrautum er mjög gott og nóg rými utandyra.

Verkstæðið hjá Velti er eitt það best tækjum búna á landinu.

Fullkomnar gryfjur og tæknilegur turn
Með nýrri þjónustumiðstöð voru tekin upp ný vöruhúsa- og strikamerkjakerfi ásamt 11 metra háum vöruturni sem gerir allt varahlutaflæði framúrskarandi. Í turninum eru núna um 4.000 vörur og með tímanum skynjar turninn vinsælustu vörurnar og raðar þá hillum með vinsælustu vörunum næst opi turnsins og flýtir þannig fyrir varahlutaflæði.

Á verkstæðinu eru viðgerðagryfjur af fullkomnustu gerð. Ein þeirra er útbúin einum fullkomnasta bremsuprófunarbúnaði sem völ er á á markaðnum. Í þessari sömu gryfju eru einnig öflugar hristiplötur sem gera Velti kleift að sjá betur slit í hjólabúnaði vörubifreiða. Kemur þessi búnaður til með að virka vel með fullkomnum hjólastillingarbúnaði sem þjónustumiðstöðin hefur nýlega tekið í notkun.

Ný hraðþjónusta
Í nýrri þjónustumiðstöð Veltis verður auk Volvo umboðsþjónustu, Veltir Xpress, ný hraðþjónusta við atvinnubíla af öllum stærðum þar sem boðið verður upp á smurþjónustu, vagna- og bremsuviðgerðir ásamt dekkjaþjónustu. Frumherji verður auk þess með sérhæfða skoðunarstöð fyrir allar gerðir atvinnubíla í húsinu.

Nánar er fjallað um málið í Atvinnubílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Brimborg  • Volvo  • Velti