*

Menning & listir 29. febrúar 2016

Verðmætasta veggfóður á Íslandi

Nýlega var opnuð umfangsmikil sýning á verkum Jóhannesar Kjarval á Kjarvalsstöðum.

Kári Finnsson

Það er áreiðanlegt að einhvern tíma þykjumst við Íslendingar af því að hafa átt mann eins og Kjarval – en það er bara af býsna litlu að þykjast ef við sýnum honum ekki verðskuldaðan sóma meðan krafta hans nýtur við. Og eg er sannfærður um að einhvern tíma á það eftir að koma í ljós, að veggfóðrið í herbergi þessa kunna listamanns er verðmætasta veggfóður á Íslandi.“ Þetta er haft eftir blaðamanni sem tók viðtal við Jóhannes Kjarval fyrir Vísi árið 1936.

Í viðtalinu er hér verið að vísa til veggmyndar Kjarvals á vinnustofu hans sem ber titilinn Lífshlaupið sem er til sýnis á nýrri sýningu á verkum hans á Kjarvalsstöðum sem var opnuð nú fyrir skömmu. „Mér finnst einstöku sinnum að á þilið þarna hafi ég málað mínar skástu myndir,“ er haft eftir Kjarval í viðtalinu.

Sýningin ber titilinn Hugur og heimur og er í báð­ um sölum Kjarvalsstaða. „Þeir endurspegla annars vegar heiminn eða viðtakandann, sem er einkasafnari í þessu tilfelli og ekki bara viðtakandann heldur líka þetta veraldlega rými sem Kjarval bjó til fyrir sig vegna þess að hann bjó í vinnustofunni sinni,“ segir Ólöf K. Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, sem er jafnframt sýningarstjóri sýningarinnar.

„Þar eru verk sem sýna þá miklu vinnu og þjálfun sem hann lagði í til að verða sá sem hann varð. Þetta má meðal annars sjá í gegnum teikningar frá skóla­ árunum og áhugaverða endurtekningu í málverkinu. Með þessu er Kjarval ekki bara að þjálfa höndina heldur líka sína innri sjón. Í hinum salnum er hins vegar fókusinn á það sem þessi innri sjón listamannsins vill miðla til umheimsins. Hvað er það sem hugur listamannsins fæst við? Gengið er út frá tveimur meginþemum sem menn hafa greint í list Kjarvals. Það er annars vegar landið og hins vegar fantasían. Þau mynda hvor sinn pólinn og renna síðan saman í miðrýminu. Þar er Krítík lykilverk en í því verki mætast þessir heimar og listamaðurinn veltir jafnframt fyrir sér stöðu listamannsins sem opnar hugarheim sinn fyrir almenningi,“ segir Ólöf.

Nánar er rætt við Ólöfu í Eftir vinnu fylgiriti Viðskiptablaðsins.