*

Bílar 5. desember 2016

Verðmætustu vörumerkin

Þýskir og japanskir bílaframleiðendur eru áberandi á lista Forbes yfir verðmætustu vörumerkin í bílabransanum.

Bjarni Ólafsson

Bandaríska tímaritið Forbes tekur árlega saman lista yfir verðmætustu vörumerki heims. Á listanum eru tólf vörumerki tengd bílaiðnaði, annaðhvort bílaframleiðendur eða undirtegundir þeirra. Reyndar ber að taka listanum með þeim fyrirvara að til að komast á heildarlistann þurfti viðkomandi fyrirtæki að vera með töluverða starfsemi í Bandaríkjunum, sem gerði það að verkum að vörumerki eins og fjarskiptarisann Vodafone og kínverska netverslunarveldið Alibaba hverfa í skuggann.

Til að meta virði vörumerkisins sem slíks skoðuðu blaðamenn Forbes ársreikninga þeirra þrjú ár aftur í tímann og reyndi að slá á það hversu stór hluti tekna er til kominn vegna vörumerkisins sjálfs. Skiptir þar máli hversu mikilvæg vörumerki eru í viðkomandi geira, en þau eru til dæmis mun mikilvægari í drykkjarvöru- og munaðarvörugeirunum en í olíuframleiðslu.

Tæknifyrirtæki vermdu flest efstu sætin á listanum í ár, eins og verið hefur undanfarið, en japanski bílaframleiðandinn Toyota náði þó inn á topp-tíu listann, en Toyota er verðmætasta vörumerkið í bílageiranum samkvæmt úttekt Forbes og sjötta verðmætasta vörumerkið almennt.

Virði vörumerkis Toyota er metið á 42,1 milljarð bandaríkjadala, andvirði um 4.700 milljarða króna. En til samanburðar er markaðsvirði Toyota tæpir 198 milljarðar dala. Ef mark er tekið á útreikningum tímaritsins er virði vörumerkisins því ríflega 20% af heildarverðmæti fyrirtækisins. Virði vörumerkis Toyota er talið hafa hækkað um 11% milli ára, en það er þó ekki stærsta stökkið á milli ára í bílabransanum. Árangur Toyota er enn betri þegar haft er í huga að Lexus bílategundin nær einnig á listann yfir 100 verðmætustu vörumerki heims, en Lexus-línan er framleidd af Toyota. Er virði Lexus merkisins metið á um 9 milljarða dala af Forbes.

Þýsku lúxusbílaframleiðendurnir BMW og Mercedes-Benz eru í öðru og þriðja sæti yfir verðmætustu vörumerkin í bílabransanum, en BMW er í 14. sæti á heildarlistanum og Benz í því 20. Virði vörumerkjanna tveggja er svipað, eða um 28,8 milljarðar dala í tilviki BMW og um 26 milljarðar í tilviki Benz.

Japanski bílaframleiðandinn Honda er í fjórða sæti á þessum lista hvað varðar vörumerki bílaframleiðenda, en í 23. sæti á heildarlistanum. Er virði vörumerkis Honda metið á um 25,2 milljarða dala.

Stikkorð: Forbes  • Vörumerki  • verðmætustu