*

Menning & listir 24. janúar 2019

Verður millistéttin næst?

Í nýrri bók er sagt að menntað fagfólk frekar en verkafólk muni bera þunga næstu bylgju hnattvæðingarinnar.

Þrátt fyrir að hnattvæðing síðustu áratuga hafi almennt aukið hagsæld hafa sumar starfstéttir og landshlutar setið eftir í góðærinu. Efasemdir um ágæti þróunarinnar hafa einna helst heyrst frá verkafólki af láglaunasvæðum landsbyggðarinnar og endurróm óánægjunnar má t.d. greina í meiri stuðningi við Trump og Brexit á slíkum svæðum. Ávinningurinn hefur hins vegar mestur verið hjá menntastéttum stórborganna og þar sömuleiðis er stuðningur við frekari alþjóðavæðingu mestur.

En hvað gerist ef sigurvegarar hnattvæðingarinnar hingað til verða næstu fórnarlömb hennar? Þetta er spurning sem hagfræðingurinn og prófessorinn Richard Baldwin varpar fram í nýrri bók The Globotics Upheaval en fjallað er um bókina í Financial Times.

Í bókinni færir Baldwin rök fyrir því að ólíkt fyrri tímabilum hnattvæðingarinnar þá kunni næstu stig hennar að koma verst niður á mennta- og millistéttinni. Það verði ekki verkafólk í iðnaðarframleiðslu sem beri þungan af hagræðingunni heldur verði það menntaða millistéttin; bókhaldarar, læknar og lögfræðingar o.s.frv..,

„Þegar efri millistéttin byrjar að deila byrgðinni með verkafólk er óhjákvæmilegt að andstaða við hnattvæðinguna aukist,“ hefur blaðið eftir Baldwin. Financial Times lofsamar bókina og segir umfjöllunarefni hennar mikilvæga áminningu fyrir ráðamenn og stefnusmiði sem þessa dagana ráða ráðum í Davos í Sviss.   

Stikkorð: verkafólk  • hnattvæðing