*

Menning & listir 13. nóvember 2013

Verk Bacons seldist fyrir metfé

Met var slegið á uppboði Christie's í New York.

Óþekktur kaupandi utan Bandaríkjanna átti hæsta boð í verk breska myndlistarmannsins Francis Bacon af Lucien Freud þegar það var slegið hjá uppboðshúsi Christie's í New York í gær. Fyrsta tilboð hljóðaði upp á 80 milljónir dala, jafnvirði 8,9 milljarða íslenskra króna. Lokatilboðið hljóðaði hins vegar upp á 127 milljónir dala, jafnvirði tæpra 15,6 milljarða íslenskra króna. Ofan á verðið bættist síðan 12% álag og umsýslugjald og fór heildarverðið því upp í 142,2 milljónir dala.

Annað eins verð hefur aldrei áður sést á listaverkauppboðum og slær verk Bacon við Ópi Munchs sem seldist í fyrra fyrir 120 milljónir dala.

Breska dagblaðið Financial Times segir að þetta hafi ekki verið eina metið sem slegið var því met var slegið á uppboðinu sjálfu. Listaverk sem þar voru boðin upp seldust fyrir 691,5 milljónir dala, jafnvirði 84,8 milljarða íslenskra króna. Á meðal verka á uppboðinu voru eftir Jeff Koons, Peter Brandt, Willem de Kooning, Donald Judd og Christopher Wool. Þá lifa verk Andy Warhol enn góðu lífi á uppboðum en verkið Coca Cola seldist á 57,3 milljónir dala, jafnvirði sjö milljarða króna. 

Stikkorð: Francis Bacon  • Lucien Freud