*

Menning & listir 25. október 2014

Verkin eiga ekki að vera framandi

Bandaríski myndlistarmaðurinn Lawrence Weiner opnaði í síðustu viku sýninguna „Fram með ströndinni“ í i8 galleríi.

Kári Finnsson

Í salarkynnum i8 gallerís við Tryggvagötu blasir við stafli af skærgulum fiskikörum sem skrifað hefur verið á með rauðum stöfum „FRAM MEÐ STRÖNDINNI“ bæði á ensku og íslensku. Á veggjum gallerísins eru fleiri áletranir. „FALIÐ Í HENDUR DJÚPSINS“, stendur á einni hlið, „RYKKTUR LAUS“ og „KASTAÐ Á REK“ stendur á hinum og á burðarsúlu í miðjum salarkynnum þess er að finna teikningar þar sem vísað er til íslensku strandlengjunnar með einum eða öðrum hætti.

Það þarf ekki langan tíma til að átta sig á því að þessar áletranir hafa sömu áhrif og skúlptúrar hafa. Þetta er þrívíð upplifun sem fæst bæði ef rýnt er í merkingu textanna og uppsetningu þeirra. Höfundur listaverkanna, bandaríski myndlistarmaðurinn Lawrence Weiner, hefur einmitt áður sagt að hann undrist af hverju fólki finnst það skrítið að texta sé beitt sem skúlptúr. „Ég skil ekki af hverju fólk verður svona brjálað þegar skúlptúr birtist þeim í formi tungumáls,“ sagði hann í viðtali við The Art Newspaper. „Það er svipað að nota tungumál og akrílmálningu eða ljós til að búa til hluti – það er ekkert framandi við það.“

Þetta er þriðja einkasýning Lawrence Weiner hjá i8 en verk hans hafa verið sýnd margoft á Íslandi áður. Hann er heimsþekktur listamaður og talinn meðal helstu forsprakka konseptlistar frá sjöunda áratug síðustu aldar, en sjálfur kann hann illa við þann stimpil. Hann hefur haldið einkasýningar í mörgum af stærstu söfnum heims en þar má telja m.a. Stedelijk safnið í Amsterdam, Haus der Kunst í München í Þýskalandi og Whitney Museum of American Art í New York. Þess utan hafa verið skrifaðar margar bækur um hann og hans verk.

Ég hitti Weiner í litlu móttökuherbergi inni í skrifstofurými i8 nokkrum tímum áður en sýning hans var opnuð í síðustu viku. Hann er 72 ára, með sítt og mikið skegg og þótt líkamsbygging hans sé orðin heldur veikburða er hugmyndaflug hans og kímnigáfa enn í fullu fjöri. Á meðan viðtalið stendur yfir keðjureykir hann sígarettur sem hann vefur jafnóðum, hóstar kröftuglega með reglulegu millibili og talar með rámri en voldugri rödd af mikilli sannfæringu en jafnframt notalegri léttúð.

Ísland ekkert sérstakari staður en aðrir

Ég spyr hann í upphafi hvernig samband hans við Ísland hófst og hvort það hafi einhverja sérstaka merkingu í hans huga. „Það var árið 1963, í minni fyrstu Evrópuför, sem ég kom hingað fyrst.“ segir Weiner „Ég varð strax mjög forvitinn um landið og löngu síðar fór ég að sýna hérna. Ég hélt sýningu í Gallerí Annarri hæð hjá Pétri [Arasyni] og Rögnu [Róbertsdóttur] og í kjölfarið eignaðist ég nokkra vini og kunningja hérna.

„Ég er ekki mjög rómantískur í eðli mínu en það er eitthvað við þennan stað – þetta er einhvern veginn allt annar staður. Og í þokkabót er hann umlukinn vatni. En ég held samt að Ísland sé ekkert sérstakari staður en aðrir. Ísland er bara Ísland og New York er bara New York. Allir staðir eru sérstakir.“

Weiner segist yfirleitt sækjast eftir því að hafa verk sín á tungumáli staðarins þar sem þau eru sýnd. „Þegar ég vinn verk mín þá vísa þau yfirleitt til tiltekinna fyrirbrigða án þess að þau hafi eitthvert tiltekið form. Þannig get ég fært þau frá einni menningu til annarrar án þess að þau verði á einhvern hátt framandi. Enda eiga þau ekki að vera framandi.“

En í þessu tilviki ertu að sýna verk sem hafa tengingu við sjóinn. Tungumálið okkar er að mörgu leyti tengt sjónum auk þess sem við höfum marga frasa sem eru beintengdir sjómennsku.

„Já, einmitt. Það er líka eflaust ein ástæðan fyrir því að ég ákvað að dveljast aðeins lengur á Íslandi í þetta skiptið og vinna í nokkrum verkum.“

Dreifir listaverkum á meðal útgerða

En hvernig datt þér í hug að nota fiskikörin sem efnivið?

„Þetta er svipað og ég hafði gert á Listahátíð í Reykjavík fyrir nokkrum árum. Þá hafði ég áletrað rekavið sem fór í sjóinn og enginn hafði hugmynd um hvar hann gæti endað. Núna verð ég með fimmtíu fiskikör sem ég hef látið dreifa á meðal útgerða og gætu því endað hvar sem er í heiminum.“

Sýningin nær því yfir frekar stórt rými, jafnvel þó að galleríið sjálft sé smátt. Þá á ég bæði við dreifingu fiskikaranna og líka textana sjálfa. Textarnir gefa til kynna einhvers konar ferðalag.

„Rétt, en það sama gildir um t.d. málverk eftir Mondrian eða í raun hvaða málverk eða skúlptúr sem er. Ég held að notkun mín á tungumálinu sé alls ekki það sem gerir verk mín áhugaverð. Við búum í heimi þar sem fólk lítur alltaf á hlutina eins og þeir koma fyrir og þeir eru strax í einhverju aðgengilegu formi, eins og formið hefði einhverja merkingu. Form er bara form. Það er bara það sem það er.“

Viltu eiga einhvers konar samtal við almenning með verkunum þínum? Þá á ég sérstaklega við þau sem þú dreifir víða eða eru í almannarými.

„Ekki endilega á einhverju persónulegu stigi. Ég vil að almenningur horfi á verkin og átti sig á því að þau hafi eitthvert erindi við hann. Ég vil að almenningur takist á við þá merkingu sem verkin hafa fyrir hann en ekki hvaða merkingu þau hafa fyrir mér.“

Engin smá fjárfesting 

Myndir þú segja að mikið af nútímalist sem gerð er í dag sé á einhvern hátt aðskilin almenningi?

„Ég skil ekki af hverju það ætti að vera. List er gerð af fólki fyrir annað fólk. Listamenn eru almenningurinn. Við borgum skatta, við förum með börnin okkar til tannlæknisins. Listamenn eru bara þeir sem hafa tekið ákvörðun um að verja tíma sínum í að horfa á hluti sem annað fólk hefur ekki tíma fyrir. Eða, ef það fólk fengi tíma til þess, þá fengi það ekki jafn sterka upplifun og það vildi almennt fá af lífinu. Vegna þess að listin er ekki beint arðbærasta starfsgreinin, sama hvað þú gætir lesið um í blöðunum.

En það að fjárfesta í list er samt engin smá fjárfesting. Það sem þeir gera sem kaupa list er að þeir veita listamönnunum færi á að kaupa það dýrasta sem til er í heiminum, sem er tími. Þannig geta þeir búið til fleiri verk og þeir sem kaupa verkin fá síðan eitthvað annað úr þeim. Þetta er frekar góður díll. Listamenn eru ekki ómissandi hluti af samfélaginu, en þeir eru hluti af samfélaginu. Þeir njóta ekki einhverra sérréttinda, en þeir gætu haft ólíkar þarfir.“

Þú skilur samt af hverju fólk vill greina á milli einhvers afmarkaðs listheims og hins vegar þess heims sem hinn almenni borgari tilheyrir.

„Það er bara skáldskapur sem einhverjir hafa búið til og kemur listinni ekkert við. Ég man þegar ég var sextán ára gamall og ég sagði móður minni frá því að ég ætlaði að verða listamaður. Hún var mjög skynsöm og vel lesin kona en hún horfði á mig áhyggjufull og sagði við mig: „Lawrence, þú átt eftir að verða fyrir gríðarlegum vonbrigðum.“ Ég spurði af hverju og hún svaraði: „Vegna þess að list er bara fyrir ríkt fólk og konur.“

Þetta var engin árás á listina af hennar hálfu. Það sem hún átti við var að listin var þá bara fyrir fólk sem naut forréttinda. Ég held að þetta hafi breyst mjög mikið síðan þá. Það er engin sérstök stigskipting í listinni. Aðferð einnar manneskju við að tjá sig er í raun alveg jafn góð og tjáning annarrar manneskju, sumir hafa bara meira að segja en aðrir.

Almenningurinn er ekki heimskur, en það er margt sem ég er að kljást við í minni list sem hefur enga merkingu í augum flestra. Flest fólk hefur ekki áhuga á henni og ef þú hefur ekki áhuga á list minni, þá þarftu að bíða. Þegar ég geri listaverk í almannarými þá geri ég þau á þann hátt að þau fokki ekki upp degi einhvers sem er á leiðinni í vinnunna. En þegar áhorfandinn nær alvöru tengingu við verkið, þá gæti það fokkað upp öllu lífi hans. Þannig að það myndi breyta algjörlega skynjun hans á því hver hann er og hvernig hann er.“

List sem hreyfir við manni

Hvert heldur þú að sé hlutverk listamannsins?

„Í stuttu máli þá má segja sem svo að hlutverk akademíunnar t.d. sé að veita svör við spurningum. Hlutverk listamannsins er að spyrja spurninga. Ef það er enginn í samfélaginu til að spyrja spurninga, hvers konar samfélag er maður þá með?

Listin er að sama skapi algjörlega efnislegt fyrirbæri. List sem er notuð í einhverjum sérstökum tilgangi, til að koma einhverjum ákveðnum skilaboðum á framfæri, er alveg góð og gild. En ég held að blaðamennska sé mun hentugri í slíkt. Það er svo margt sem er að í heiminum, en það að benda fingri á það er ekki að fara að leysa nein vandamál. En að horfa á hlutina frá einhverju allt öðru sjónarhorni, það getur leitt eitthvað magnað af sér. Það er í raun það eina sem þú getur ætlast til af listamanni. Ef þú gefur einhverjum allt annað sjónarhorn á hlutina, þá hefur þú breytt sambandi hans við heiminn sem hann býr í.“

Það er væntanlega það sem fólk á við þegar það segir að list hreyfi við manni.

„Hreyfi við manni?,“ segir Weiner og tekur smók af sígarettunni. „It gives you the ticket to ride!“

Sýning Lawrence Weiner, „Fram með ströndinni“ stendur til 29. nóvember næstkomandi.

Stikkorð: i8 gallerí  • Lawrence Weiner