*

Veiði 7. maí 2016

Verslun með veiðivörur tekur kipp

Sala á veiðivörum í apríl var ámóta og hún hefur að jafnaði verið í júnímánuði, sem er háannatími í veiðiverslun.

Trausti Hafliðason

Verslun með veiðivörur hefur tekið kipp á þessu ári og fyrir því eru ýmsar ástæður. Vafalaust er ein þeirra sú að fólk hefur fólk meira á milli handanna eftir launahækkanir undanfarin misseri. Ólafur Vigfússon, sem ásamt konu sinni Maríu Önnu Clausen, hefur rekið veiðiverslunina Veiðihornið í átján ár segist finna fyrir miklu meiri sölu á dýrari og vandaðri búnaði en áður.

„Apríl mánuður var frábær og slagar upp í júní í meðalári," segir Ólafur. „Það eru nokkrar ástæður fyrir þessu. Í fyrsta lagi skiptir veðráttan máli og apríl var mjög góður. Þegar það er sól og hiti þá kviknar á veiðimönnum og þeir fara á stúfana. Í öðru lagi þá var góð veiði í fyrra og veiðimenn eru meðvitaðir um það. Þriðja ástæðan er síðan áð tollar voru felldir niður af veiðifatnaði og skóm. Sem dæmi þá eru vöðlur, sem kostuðu 170 þúsund í fyrra, komnar niður í 146 þúsund núna."

Í Reykjavík eru reknar margar veiðiverslanir, Auk Veiðihornsins og Veiðimannsins má nefna Vesturröst, Veiðivon, Veiðiflugur, Veiðiportið og síðan eru Ellingsen og Útilíf með veiðideildir.  Spurður hvort mikil samkeppni sé í þessum geira svarar Ólafur: „Já, það er gríðarleg samkeppni en samt sem áður held ég að hún hafi ekki aukist neitt sérstaklega því þegar við byrjuðum var álíka fjöldi veiðiverslana og nú er. "

Byrjaði allt árið 1998

Í febrúar árið 1998 keyptu hjónin Ólafur og María Anna rekstur Veiðimannsins, sem þá var til húsa við Hafnarstræti 5.

„Við keyptum ekki nafnið sjálft heldur leigðum við það um tíma eða þar til við ákváðum að breyta nafni verslunarinnar í Veiðihornið, enda var húsið á horni Hafnarstrætis og Naustanna," segir Ólafur. Hjónin ráku verslunina í Hafnarstræti til ársins örlagaríka 2008.

„Ég hafði það á tilfinningunni í mars 2008 að bankapartíið væri að verða búið. Ég man nákvæmlega hvar ég var þegar ég fékk þessa tilfinningu. Ég var að lesa Moggann um borð í flugvél á leiðinni heim af byssusýningu. Þá sá ég að það var mikið flökkt á gengi krónunnar og hugsaði með mér að nú væri eitthvað verið að fikta og fegra ársfjórðungsuppgjörin. Það væri eitthvað að fara að gerast. Auðvitað vonaði maður að það myndi bara leka hægt úr blöðrunni frekar en að hún myndi springa. Við vorum með sex mánaða uppsagnarfrest á leiguhúsnæðinu og ákváðum að segja leigunni upp um mánaðamótin mars apríl og sluppum því út rétt áður en kreppan skall á með hvelli."

Á þessum tíma voru þau hjón búin að reka verslunina í Síðumúla frá árinu 2001. Og um tíma voru þau líka með verslun í Kringlunni í tvö og hálft ár. En eftir að leigunni var sagt upp í Hafnarstrætinu færðist þungamiðja rekstursins upp í Síðumúla, þar sem hún hefur verið síðan. Árið 2007 keypti Veiðihornið rekstur Sportbúðarinnar við Krókháls. Í upphafi var verslunin rekin að Krókhálsi 5.

„Við gerðum fimm ára húsaleigusamning, sem var mjög óhagstæður undir lokin. Við reyndum að semja um betri kjör en eigendur húsnæðisins voru ekki til í það. Á sama tíma var Harðviðarval, sem er hinum megin við götuna við Krókháls 4, að minnka við sig og við ákváðum að færa okkur yfir og leigja verslunarrými þar."

Upprisa Veiðimannsins

Verslunin við Krókháls hefur síðustu árin verið rekin undir nafninu Veiðilagerinn.

„Markaðurinn gjörbreyttist eftir hrun. Það hægðist á sölu á dýrari vöru en sprenging varð í sölu á ódýrari vöru. Fólk hafði meiri tíma. Það var ekki að fara mikið til sólarlanda heldur eyddi fríinu innanlands og þá var vinsælt að fara í veiði. Það varð til fullt af nýjum veiðimönnum á þessum árum. Í Veiðilagernum sveigðum við okkur í átt að þessum nýja markaði og þar höfum við boðið upp á ódýrar veiðivörur. Þetta hefur gengið mjög vel á sumrin en verið rólegt yfir vetrartímann."

Síðustu mánuði hefur verið unnið hörðum höndum við að breyta versluninni við Krókháls og lauk þeim framkvæmdum með því ný verslun var opnuð á sunnudaginn undir nafni og merki Veiðimannsins.

„Þegar Veiðimaðurinn fór í þrot árið 2008 þá keyptum við nafnið og merkið af þrotabúinu. Þetta hefur verið ofan í skúffu hjá okkur í nokkur en við höfðum alltaf í huga að nota nafnið einhvern tímann og nú hefur það sem sagt gerst. Við erum með umboð fyrir gæðavörur á borð við Simms og Sage og okkur langaði að koma þeim í sölu þarna líka. Það er ekki hægt að fara með svona vörur inn í "outlet" og því ákváðum við að breyta versluninni og bæta hana. Eftir sem áður þá verðum við líka með ódýrar vörur í Veiðimanninum og munum selja beitu eins og maðk og makríl og þegar það fer á líða á sumarið verðum við líka með skotveiðivörur."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Veiði  • Stangveiði  • Ólafur Vigfússon