*

Ferðalög 23. janúar 2013

Versta hótel í heimi: Svefnpoki við hraðbraut skárri kostur

Hans Brinker Budget Hotel í Amsterdam stærir sig af því að vera versta hótel í heimi.

Lára Björg Björnsdóttir

Fá hótel monta sig af því að vera versta hótel í heimi en það gera hinsvegar eigendur hótelsins Hans Brinker Budget Hotel í Amsterdam Og þeir gera gott betur, þeir benda á hvaða hótel þú ættir frekar að gista á. Þetta kemur fram á fréttamiðlinum BBC Travel.

Herbergin á hótelinu eru einföld, svo ekki sé meira sagt. Allt upp í átta manns geta gist í sama herberginu í kojum. Bláir læstir járnskápar geyma verðmæti gestanna. Það þýðir lítið að moka sjampóum og sápum ofan í tösku þegar tékkað er út því slíkan munað er ekki að finna á Hans Brinker. 

Þrátt fyrir þennan augljósa hrylling sem sápulaust baðherbergi getur verið og annað lúxusleysi er hótelið nánast fullt allan ársins hring þökk sé blönkum námsmönnum og ungu fólki á lestarferðalögum. 

Verðið á gistingu er frá tuttugu og tveimur evrum og upp í rúmlega fimmtíu evrur. 

Þeir sem hafa þorað að gista á Hans Brinker hafa misjafnar sögur að segja. Á meðan einn gestanna segist hafa fengið nákvæmlega það sem hann borgaði fyrir segir annar að hótelið minni á yfirgefið sjúkrahús og herbergin séu eins og fangaklefar.

Hótelið sjálft bendir tilvonandi viðskiptavinum síðan á að svefnpoki við hraðbraut væri hugsanlega skárri kostur en nótt hjá þeim.

Stikkorð: Hótel  • Ferðalög