*

Ferðalög & útivist 14. febrúar 2020

Vestfirðir síðustu ókönnuðu slóðirnar

Financial Times fjallar um áhrif aukinnar ferðamennsku á Íslandi. Vestfirðir eins og Ísland allt fyrir 30 árum.

Blaðamaður Financial Times segir frá þeirri miklu breytingu sem verið hefur á Íslandi frá því að hann kom hingað fyrst fyrir þrjátíu árum til dagsins í dag. Þá hafi hann verið einn af 143 þúsund ferðamönnum til landsins, en árið 2018 hafi þeir veri 2,3 milljónir eða sex á hvern íbúa.

Til að finna aftur það Ísland sem ýtti svo við honum fyrir 30 árum að hann hefur heimsótt landið um 50 sinnum síðan, reyndar líklega vegna þess að hann á íslenska tengdaforeldra, þá tók hann sér ferð til Vestfjarða í síðustu ferð sinni.

Kallar hann Vestfirði síðustu ókönnuðu slóðirnar á Íslandi því það sem einkenndi fyrstu ferð hans, hina mögnuðu einveru í auðninni, sé sífellt ólíklegra í dag vegna ferðamannastraumsins.

Lýsir hann fluginu til Ísafjarða og hvernig fjallahringurinn kom út úr þokunni þegar hann flaug til þessarar höfuðborgar svæðisins, sem hann bendir á að séu á stærð við hálft Sviss en með sínum 2.500 íbúum búið þriðjungur heildarfjölda svæðisins á Ísafirði.

„Velkominn til Íslands, Íslands,“ hefur hann eftir fararstjóranum Birnu Jónasdóttur þegar hún hendir farangri hans í smárútu.

Lýsir hann staðnum sem landi varaáætlana, þar sem villt náttúran kallar reglulega á að plan B sé virkjað, og vísar í orð fararstjórans um að helmingur alls flugs til bæjarins hafi verið aflýst síðasta vetur. „Því til viðbótar eru bara tveir vegir inn á Vestfirði, sem geta verið lokaðir dögum saman.“ En það þýði aftur að staðurin fái betri gesti sem séu harðari af sér.

Bara hassreykjandi hippar að horfa á Norðurljós

Í greininni lýsir hann mannlífi, heimsóknum á söfn og náttúrunni, þar á meðal Norðurljósunum sem hann segir Íslendinga lítið hafa veitt athygli fyrr en þau fóru að trekkja að ferðamenn. „Þegar ég var yngri,“ hefur hann eftir einum miðaldra íbúa. „Var eina fólkið sem tóku eitthvað eftir ljósunum hippar sem voru að reikja hass.“

Einnig lýsir hann heimsókn til Flateyrar, og áhrifum snjóflóðsins þar árið 1995, rólegheitunum í sundlaug staðarins, og hvernig gestirnir láta vindinn ekki hafa nein áhrif á sig.

Jafnframt fjallar hann um hvernig hinir smáu bæir allt í kringum landið hafi lifað af vegna sterkra hefða og róta íbúanna, þar sem unga fólkið hafi löngum flutt í burtu en sé nú að snúa aftur vegna kostnaðar í Reykjavík, því ódýrara sé til að mynda að reka fjölskyldu á landsbyggðinni.

Á ferð sinni ræðir hann meðal annars við Arnar Sigurðsson sem byggt hefur upp tækniþróunarsetrið Blábankann, eða Blue Bank á Flateyri, útsýnið þegar hann keyrir yfir vestfirsku Alpanna eins og stórkostleg fjöllin í suðurhluta Vestfjarða eru oft kölluð, á leiðinni til Bíldudals.

Þar nýtur hann þess að horfa á fótboltaleik með því sem hann kallar öllum bæjarbúum sem troðið hafa sér inn á eina veitingastað bæjarins. Jafnframt segir hann að eftir tapleikinn hópurinn hafi tekið upp gítara og byrjað að syngja lag sem sungið sé á hverju nýári, til minningar um nýlátinn góðborgara, en sama lag sé sungið á hverju ári til að minnast þeirra sem féllu í snjóflóðinu á Flateyri.

Loks endar hann ferðina um Vestfirði með því að eiginmaður gistihúseigendans býður honum í siglingu til að sjá hvali þar sem þeir komust í kynni við fjóra hnúfubaka. Í lýsingu sinni á akstrinum suður á ný segir hann frá því hvernig margir staðir minntu hann á Ísland eins og það var áður en ferðamannasetur og þjónustumiðstöðvar spruttu upp eins og gorkúlur við helstu ferðamannastaðina.

Hægt er að lesa greinina alla á vef FT.