*

Menning & listir 29. nóvember 2015

Vesturlöndin eru barnaleg gagnvart Pútín

Ástæðan fyrir því að Pútín réttir fram hjálparhönd í Sýrlandskrísunni er til að fá viðskiptabanni aflétt að mati höfundar nýrrar bókar.

Kári Finnsson

Bill Browder byggði upp risastóran fjárfestingarsjóð í Rússlandi til þess eins að sjá Pútin Rússlandsforseta hrifsa hann af honum og gera Browder brottrækan frá Rússlandi. Vinur hans og samstarfsmaður var pyntaður og myrtur af rússneskum yfirvöldum og hann hefur í kjölfarið skorið upp herör gegn spillingu þar á landi. Bók hans, „Eftirlýstur“, sem kom nýlega í íslenskri þýðingu en heitir á frummálinu „Red Notice“, fjallar um þessar raunir Browders og baráttu hans gegn spillingu í Rússlandi og ógnarstjórn Pútins.

Hvernig metur þú ástand mála í Rússlandi í dag og telur þú að eitthvað sé hægt að gera til að draga úr spillingu þar á landi?

„Ástæðan fyrir því að ég skrifaði þessa bók var í fyrsta lagi svo að allir gætu lesið sögu Sergeis en líka til að vara fólk við illsku Pútin-stjórnarinnar. Það er fullt af fólki þarna úti sem er hreinlega barnalegt þegar kemur að Pútin. Fólk áttar sig ekki á því við hvern það er að eiga við. Ég held að til þess að eiga við Rússland þurfi stjórnmálamenn að taka mun harðari afstöðu gegn þessum manni vegna þess að hann mun koma til með að valda vandræðum um ókomna framtíð. Eina leiðin til að stöðva hann er ekki með því að grátbiðja hann um að vera góðan, heldur að neyða hann til þess.“

Viðskiptabanninu verður aflétt

Nú hefur hann reitt fram hjálparhönd í Sýrlandskrísunni. Hvernig breytir það stöðu hans gangvart Vesturveldum að þínu mati?

„Þetta er mjög sniðug ráðagerð hjá honum. Eftir að hafa séð hversu illa flóttamannavandinn kemur við Vesturlönd þá réttir hann fram eins konar hjálparhönd til að leysa þennan vanda. Ástæðan fyrir því að hann gerir þetta er eingöngu til þess að hann geti fengið viðskiptabanninu aflétt – og það mun alveg örugglega gerast.“

Alveg örugglega?

„Vegna þess að Vesturlöndin eru svo barnaleg gagnvart áætlunum hans.“

Hvernig áhrif hefur viðskiptabannið gegn Rússlandi haft á áform Pútins?

„Þau eru að valda honum miklum vandræðum vegna þess að illska hans verður að vera fjármögnuð með einhverjum hætti. Viðskiptabannið er að svipta hann völdum með mjög sterkum hætti.“

Nánar er rætt við Browder í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.