*

Sport & peningar 31. júlí 2015

Vetrarólympíuleikarnir 2022 verða í Peking

Alþjóðaólympíunefndin hefur valið Peking fram yfir Almaty í Kasakstan sem gestgjafi vetrarólympíuleikanna 2022.

Kínverska stórborgin Pekíng verður gestgjafi vetrarólympíuleikanna árið 2022, en þetta fékkst staðfest rétt í þessu. Peking hélt sumarólympíuleikana árið 2008 og þóttu þeir heppnast einstaklega vel.

Alþjóðaólympíunefndin valdi Peking fram yfir Almaty í Kasakstan, en áður höfðu borgir á borð við Osló dregið sig úr kapphlaupinu um að fá að halda leikana vegna þess hversu mikil byrðin væri.

Fjöldi viðburða ÓL í Kína verða haldnir í Zhangjiakou, sem er um 200 kílómetra frá Peking, en íþróttamenn og áhorfendur munu geta ferðast á milli borganna með nýjum hraðlestum sem byggðar verða fyrir leikana.

„Kína er þjóð sem stendur við gefin loforð,“ sagði talsmaður umsóknarnefndar Kína. Eru Kínverjar sannfærðir um að þeir verði góðir gestgjafar þrátt fyrir mikla mengun og skort á snjó.

Margir í Alþjóðaólympíunefndinni voru hrifnir af umsókn Almaty og var áherslan lögð á að nóg væri af náttúrulegum snjó í Kasakstan.

„Borgin okkar er alvöru vetrarborg með alvöru vetraríþróttamenningu, alvöru náttúru, alvöru fjöllum og alvöru snjó,“ sagði Andrey Kryukov, einn af forsvarsmönnum umsóknarnefndar Kasakstans.

Kína hafði þó betur í valinu en gríðarlegum fjárhæðum var eytt í að berjast fyrir því að fá að halda leikana. Meðal annars var Yao Ming, körfuboltastjörnu, borgaðar fúlgur fjár fyrir að láta sjá sig á hinum ýmsu viðburðum.

Stikkorð: Kína  • Kína  • íþróttir  • Ólympíuleikarnir