*

Veiði 22. september 2016

Við árbakkann á Stöð 2

Eftir viku verður fyrsti veiðiþáttur af fjórum í umsjá Gunnars Benders og Steingríms Jóns Þórðarsonar sýndur á Stöð 2.

Gunnar Bender og kvikmyndatökumaðurinn Steingrímur Jón Þórðarson hafa verið á þeytingi um sveitir landsins í allt sumar við að taka upp sjónvarpsþættina Við árbakkann. Þættirnir voru sýndir á sjónvarpsstöðinni Hringbraut á síðasta ári en verða nú á dagskrá Stöðvar 2.

Alls verða fjórir þættir sýndir á sjónvarpsstöðinni og verður sá fyrsti á dagskrá á fimmtudaginn eftir viku en ekki í kvöld eins og kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag. Gunnar segir að í fyrsta þættinum verði fylgst með opnun Norðurár, þar sem stórsöngvararnir Kristinn Sigmundsson og Kristján Jóhannsson sýndu snilli sína. Einnig verður kíkt í heimsókn í Langá á Mýrum og í Gufuá. Í þættinum, sem sýndur verður eftir tvær vikur, munu þeir Gunnar og Steingrímur Jón, taka stöðuna á veiðimönnum í Ytri-Rangá.