*

Ferðalög 9. maí 2015

Við enda regnbogans

Við Íslendingar leitum oft út fyrir landsteinana í leit að ævintýrum, afslöppun og upplifun. En stundum þarf ekki að leita langt yfir skammt

Hanna Kristín Skaftadótt

Það er ekki langt ferðalagið á Snæfellsnesið fyrir höfuðborgarbúa. Leiðin er nokkuð greiðfær allt árið um kring og auðveld í akstri. Strax og komið er að Vegamótum er tekið vel á móti gestum af heimilislegri gestrisni rekstraraðila og ábúenda. Þegar haldið er vestur af Vegamótum, eftir drjúgan kaffisopa, fara töfrarnir að leiða mann áfram í átt að jöklinum sem skjótt blasir við. Lágafellið, Ljósufjöll, Langavatn og ljósi sandurinn og steinabreiðurnar við Garð eru allt staðir til að staldra við og njóta. Stuttu síðar er komið við á Hótel Búðum.

Við Búðaós og í koti Búðavíkur kúrir Hótel Búðir. Húsið, eftir endurgerð, er reisulegt sem aldrei fyrr og kirkjan sem blasir við á hægri hönd færir mann aftur um nokkrar aldir. Þegar gengið er inn kemur hinn alkunni Nagli, súkkulaðibrúnn Labrador hundur, og fagnar komu gesta líkt og heimilishundur sem sér húsbónda sinn. Á eftir honum kemur Jói Ara, hótelstjóri Búða. Viðtökurnar eru hlýlegar og á ólýsanlegan hátt er upplifunin samofin blanda af því að vera komin í faðm fjölskyldu en þó á alveg framandi stað. Jói Ara og Nagli, ásamt glæsilegum hóp starfsmanna, gera upplifunina af verunni á Hótelum Búðum einstaka. Hann segir mun fleiri Íslendinga sækja helgarfrí sín á Hótel Búðir en áður. En þó eru einnig margir sem nýta sér einvörðungu veitingastað Búða, sem er annálaður sem einn af betri veitingastöðum landsins.

Beint frá Býli

Búðir, sem hótel, á Snæfellsnesinu er ekki það eina rótgróna þarna. Matarstefnan Beint frá býli er svo gott sem komin frá Búðum, þegar Rúnar Marvinsson var þarna í kringum 1980. Kenjar kokksins hafa verið á Búðum í áratugi svo Búðir eru brautryðjandi að mörgu leyti í íslenskri matargerð. Keyptir eru heilu kálfarnir frá Stakkhamri og tungurnar reyktar og hakkið nýtt í hamborgara. Þetta er svokölluð Búðarstemming fyrir hina svokölluðu „Búðinga“ sem Jói Ara kallar kankvíslega þá sem sækja Hótel Búðir reglulega. Þegar tækifæri gefst á sumrin hleypur starfsfólkið í hraunið og ferskt krydd sótt þangað.

Gönguleiðir og upplifun

Það má segja að á Snæfellsnesi geti Íslendingar upplifað sig sem túrista í eigin landi. Sumarið er síður uppfullt af ferðamönnum á Snæfellsnesinu en á öðrum stöðum um landið. Mikil kyrrð og ró einkennir stað- inn. Náttúruupplifunin er einstök. Fjöruferðir á Garða. ganga um Djúpalónssand og ásýnd jökulsins lætur varla nokkurn mann ósnortinn. Margar af skemmtilegustu gönguleiðum landsins eru í kringum Hótel Búðir. Strandlengjan ein og sér, brimið, fuglalífið og lífið í náttúrunni býður upp á óteljandi möguleika til gönguferða. En hæst ber þá gönguleiðin frá Arnarstapa að Hellnum. Svo er ómissandi að staldra við á Fjöruhúsinu og fá sér léttar veitingar og njóta útsýnisins. Gönguleiðin er greiðfær, fögur og hæfilega löng.

Nánar er fjallað um Snæfellsnes í nýjasta tölublaði af Eftir vinnu. 

Stikkorð: Snæfellsnes  • Hótel Búðir
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is