*

Hitt og þetta 27. janúar 2020

„Við erum allir vistmenn á Kleppi“

Auglýsingaherferð Íslandsbanka innblásin af íslenskum kvikmyndum slær í gegn segir Brandenburg.

Herferð Íslandsbanka um mikilvægi góðrar þjónustu virðist hafa slegið í gegn á netinu og á samfélagsmiðlum og fengið mikið áhorf að sögn Sigríðar Theódóru Pétursdóttur hjá Brandenburg.

Herferðin sem samanstendur af fjórum auglýsingum er með endurleiknum atriðum úr þekktum íslenskum bíómyndum, þeim Sódóma Reykjavík, Englum alheimsins, Stellu í Orlofi og Með allt á hreinu. Leikararanir eru ekki af verri endanum og má þar nefna Sölku Sól, Aron Can, Bjössa í Mínus og Gunnar Hansson, en allar eru auglýsingarnar undir formerkinu: „Góð þjónusta“.

Það var auglýsingastofan Brandenburg sem vann auglýsingarnar fyrir bankann og segir Sigríður Theódóra það ekki vera algengt að bankaauglýsingar hér á landi fái svo mikið áhorf á netinu líkt og þessar hafi fengið.

„Við sjáum að fólk virðist hafa mikinn áhuga á þessum auglýsingum enda verið að vitna í ein þekktustu kvikmyndatriði íslenskrar kvikmyndasögu. Ég gef mér að það sé húmorinn sem fólk er að sækja í og eins eiga margir skemmtilegar minningar í kringum þessar myndir. Þær eru auðvitað algjör klassík,“ segir Sigríður Theódóra.

„Þegar hugmyndin kom upp vorum við mjög spennt fyrir henni en höfðum áhyggjur af því að hún gæti ekki orðið að veruleika en allir sem að þessu komu tóku mjög vel í þetta. Þetta hefur kennt okkur að slá aldrei neina hugmynd út af borðinu af því að við höldum að hún sé ógerleg“.

Bjössi í Mínus eða Björn Stefánsson eins og hann heitir fullu nafni fer mikinn í auglýsingunum og meðal annars í atriði þar sem hann fer með hluta af einum af þekktustu frösum íslenskrar kvikmyndasögu: „Við erum allir vistmenn á kleppi“. Bjössi segir mikinn galsa hafa verið í mönnum við tökurnar enda atriðið tekið mjög snemma morguns.

„Þetta var stuð og við hlógum frekar mikið. Villi Neto var orðinn frekar stressaður undir lokin þar sem hann var að missa af fluginu sínu til Köben. Við Villi þekktumst ekkert fyrir tökurnar en morguninn endaði þannig að ég þurfti að skutla honum út í Leifsstöð þar sem hann missti af flugvélarútunni. Ég sé ekki eftir þeim kílómetrum enda er hann frábær gaur.“