*

Ferðalög 8. febrúar 2014

Við hungurmörk í Portúgal

Ásta Dís Óladóttir ætlaði sér stóra hluti í Portúgal þegar hún var 18 ára gömul. En Íslendingum var ekki hnikað úr sólbaði.

„Þau eru orðin ansi mörg ferðalögin. Eftirminnilegasta ferðin er án efa þegar ég var líklega 18 ára gömul og ætlaði að sigra heiminn,“ segir Ásta Dís Óladóttir, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar. Spurðu um eftirminnilegustu ferðina rifjar hún upp sumari 1990 þegar hún 18 ára gömul fór ásamt öðrum að vinna í Portúgal. Verkefnið var að fá ferðamenn til að kynna sér svokallað Timeshare-kerfi á íbúðum sem þá var tiltölulega nýtt. Í þessari ferð átti ævintýraþráin heldur betur að fá útrás. Annað kom á daginn.

„Við vorum í Portúgal í tæpa tvo mánuði. Það gekk hægt að fá fólk til að skoða íbúðir enda vildu Íslendingar bara liggja á bekknum við sundlaugina á hótelinu sínu og höfðu engan áhuga á að kynna sér þetta fyrirbæri. Eftir tæplega tveggja mánaða dvöl var haldið heim á leið eftir nánast SOS-símtal til foreldra minna sem áttu að bjarga mér úr prísundinni. Þau keyptu flugmiða heim enda átti ég ekki krónu eftir og draumurinn um að meika það í Portúgal var gefinn upp á bátinn. Flogið var frá Portúgal til London og þaðan heim. Ég man að dvölin í flugstöðinni í London var nánast óbærileg enda unglingurinn með engan pening og horfði löngunaraugum á matarbakkana á veitingastöðunum. Líklega er þetta í eina skiptið sem mig hefur virkilega langað í McDonalds hamborga,“ segir Ásta Dís.

Á endanum komst hún um borð í vél Icelandair sem flutti hana og vini hennar heim. „Maturinn um borð hjá Icelandair, sem þá var ókeypis, var líklega sá besti sem ég hafði nokkru sinni bragðað, svo svöng var ég orðin!“