*

Matur og vín 1. júní 2018

Viðreisnarfólk vill hafa kaffið svart

Kaffidrykkja er mest meðal stjórnenda og æðstu embættismanna samkvæmt nýrri könnun.

Flestir landsmenn vilja hafa kaffið sitt með mjólk, eða 39% en 38% vilja hafa kaffið svart. Fáir vilja hafa kaffið sitt með sykri, en aðeins 0,1% vill bara sykur í kaffið og 2% vilja mjólk og sykur. Nær fimmti hver landsmaður drekkur svo ekki kaffi. Þetta er meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum könnunar MMR.

Karlar eru meira fyrir svart kaffi, en 47% karla vilja hafa kaffið sitt svart á meðan 27% kvenna vilja hafa kaffið svart. Fleiri konur en karlar drekka ekki kaffi, en 24% kvenna drekka ekki kaffi. Aðeins 13% karla drekka ekki kaffi.

Aukin menntun, aldur og heimilistekjur auka kaffidrykkju og kaffidrykkja er mest meðal stjórnenda og æðstu embættismanna. 

Þegar kaffidrykkja fólks er sett í samhengi við stuðning fólks við stjórnmálaflokka kemur í ljós að stuðningsfólk Viðreisnar er líklegast til að vilja kaffið sitt svart. Stuðningsfólk Framsóknarflokksins og Miðflokksins var hins vegar líklegast til þess að vilja mjólk í kaffið sitt. 

Stikkorð: MMR  • Kaffi