*

Veiði 12. mars 2017

Viðsnúningur í rekstri SVFR

Tekjur Stangaveiðifélags Reykjavíkur hækkuðu um 42 milljónir króna á milli ára og skýrist það að stærstum hluta af betri veiðileyfasölu.

Trausti Hafliðason

Stangaveiðifélag Reykjavíkur (SVFR) skilaði jákvæðri afkomu á síðasta rekstrarári. Félagið hagnaðist um 9,7 milljónir samanborið við 4 milljóna króna tap árið 2015. Þetta kemur fram í nýjum ársreikningi SVFR sem birtur var á aðalfundi félagsins laugardaginn 25. febrúar. Reikningsár félagsins er frá 1. nóvember til 31. október.

Þegar rýnt er í rekstrarreikninginn sést að að rekstrartekjur námu ríflega 379 milljónum króna og jukust um um tæpar 42 milljónir króna á milli ári. Rekstrartekjur félagsins hafa ekki verið hærri frá árinu 2013 en hafa ber í huga að þá var félagið með töluvert fleiri ársvæði á sínum snærum, sem þýðir að tekjur af veiðileyfasölu voru meiri. Til dæmis var félagið þá með Norðurá á leigu.

Langstærsti tekjuliður SVFR er sala veiðleyfa. Í fyrra námu tekjur af sölu leyfa  349 milljónum samanborið við 292 milljónir árið 2015. Sala veiðileyfa jókst því um 57 milljónir króna á milli ára. Tekjur af félags- og inntökugjöldum námu 20,2 milljónum króna í fyrra en voru 20,8 milljónir árið á undan.

246,5 milljónir í leigu

Rekstrargjöld Stangaveiðifélagsins námu ríflega 368 milljónum króna í fyrra og hækkuðu um ríflega 27 milljónir á milli ára. Stærsti kostnaðarliðurinn er leigugjöld vegna ársvæða en þau gjöld námu 246,5 milljónum í fyrra en voru 241 milljón árið 2015. Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður nam tæpum 63 milljónum og hækkaði um 7,6 milljónir á milli ára. Alls eru þrjú stöðugildi hjá SVFR og nam launakostnaður 21,6 milljónum króna í fyrra, sem er 3,3 milljónum meira en árið 2015.

Þegar efnahagsreikningur SVFR er skoðaður sést að skuldir félagsins lækka töluvert á milli ára. Félagið skuldar núna tæplega 49 milljónir króna samanborið við ríflega 64 milljónir króna árið 2015.

Eigið fé, sem eru eignir að frádregnum skuldum, er neikvætt líkt og það hefur verið undanfarin ár. Staðan hefur þó batnað töluvert því eigið fé í fyrra var neikvætt um 7,2 milljónir en var neikvætt um tæplega 17 milljónir árið 2015. Þetta þýðir að eiginfjárhlutfallið, sem er hlutfall eigin fjár af heildarfjármagni fyrirtækis, er neikvætt um 17%. Eiginfjárhlutfallið var neikvætt um 36% árið 2015 og 78% árið 2013.

Rekstur Stangaveiðifélagsins er á réttri leið. Í einföldu máli má segja að ef afkoman á þessu ári verður sú sama og hún var árið 2016 verður félagið komið með jákvætt eigið fé.

Útlitið gott

Í ársreikningnum er fjallað um rekstrarhæfi félagsins. Þar segir að reksturinn í fyrra hafi gengið með ágætum. Stjórnendur hafi unnið að endurbótum á grunnrekstri félagsins eftir aðgerðaráætlun sem miði að því að ná betra jafnvægi í reksturinn. „Félagið hefur staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptabanka sínum á rekstrarárinu," segir í kaflanum um rekstrarhæfi SVFR.
Framlegðin á síðasta ári nam 11,6 milljónum króna og handbært fé 4,2 milljónum króna eftir að hafa verið ekkert síðustu ár.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.