*

Matur og vín 19. apríl 2018

Viktor Örn eldar á Apótekinu

Einn allra fremsti kokkur landsins mun elda ofan í gesti Apóteksins næstu daga.

Viktor Örn Andrésson, Bocus d´or verðlaunahafinn árið 2017, verður gestakokkur á Apótekinu í Austurstræti fram á sunnudag. Viktor hefur verið í íslenska kokkalandsliðinu frá árinu 2009 auk þess sem hann hefur starfað á mörgum af vinsælustu veitingastöðum landsins.

„Það er okkur sönn ánægja að fá þennan snilling í heimsókn í eldhúsið hjá okkur og ég veit fyrir víst að gestir Apóteksins verða ekki sviknir af réttunum sem hann framreiðir,“ er haft eftir Bergdísi Örlygsdóttur í fréttatilkynningu. Bergdís er einn af eigendum Apóteksins og markaðsstjóri veitingastaðarins.

Viktor hefur unnið til fjölda verðlauna á kokkaferlinum og má því búast við veislu fyrir bragðlaukana á fimm rétta seðlinum sem hann hefur sett saman af þessu tilefni, segir í fréttatilkynningunni. Á seðlinum er til dæmis að finna humar, nautalund, túnfisk, lakkrís, marsipan og gulbeðu, svo eitthvað sé nefnt.