*

Tíska og hönnun 23. mars 2017

Vildi ekki taka skrefið fyrr en merkið væri tilbúið

Fatahönnuðurinn Magnea Einarsdóttir er nýlent frá hátískuborginni París þar sem hún kynnti hönnun sína í fyrsta sinn á sölusýningu.

Kolbrún P. Helgadóttir

Magnea Einarsdóttir segir tengslamyndun skiptir gríðarlegu máli þegar komið er með merkið í fyrsta sinn inn á stærri markað og þá skiptir máli að merkið hafi sterkan heildarsvip og sé samkvæmt sjálfu sér í öllum þáttum út á við.

Hvernig gekk á þessari fyrstu sölursýningu sem þú tókst þátt í á tískuvikunni í  París?

Það gekk mjög vel og ég myndaði mjög góð tengsl. Ég hafði raunsæjar væntingar og fór út fyrst og fremst með það að markmiði að kynna merkið á nýjum markaði en það er vel þekkt í þessum bransa og í raun ákveðin formúla að innkaupendur og aðrir aðilar sem sækja sýningar sem þessar þurfi að sjá nýtt merki þrisvar sinnum áður en það gerir pöntun, þá sérstaklega ef þeir eru á vegum stærri og virtari verslanna sem eru þær verslanir sem við stefnum auðvitað á að komast inn í. Ég einbeitti mér því að því að gera línu sem mundi ná að sýna DNA-ið í merkinu og því sem það stendur fyrir og vera með allt mitt á hreinu varðandi kynningarefni og heildarímynd merkisins. Núna förum við svo strax í að rækta þau tengsl sem við mynduðum úti sem og að undirbúa okkur fyrir næstu sýningu sem verður í lok september.

Hvernig var tilfinningin að sjá hönnun sína innan um önnur merki sem sýndu á sýningunni?

Það er auðvitað ákveðinn sigur fólginn í því að vera komin á þennan stað, með vörumerki sem er boðið að taka þátt í sýningu með virtum merkjum á borð við Humanoid, Norse Projects og Carhartt. Ég stofnaði fyrirtækið í lok árs 2014 eftir að hafa unnið að eigin hönnun í bland við önnur verkefni frá útskrift árið 2012. Merkið hef ég byggt upp sjálf með aðstoð í formi styrkja frá Hönnunarsjóði og Nýsköpunarmiðstöð sem og ómetanlegri aðstoð frá ýmsu fagfólki innan geirans. Ég hef alla tíð fundið fyrir miklum áhuga á því sem ég hef verið að gera og hef fengið mörg boð um að sýna á sölusýningum erlendis. Ég vildi þó ekki taka skrefið fyrr en merkið væri tilbúið til þess og að mínu mati ætti enginn að taka þetta skref nema að vera viss um að um langtímamarkmið sé að ræða. Það er ákveðin fjárfesting sem fylgir þessari ákvörðun og skuldbinding um leið, til dæmis við innkaupendur og aðra tengiliði og ef til vill ekki annað tækifæri ef þær ganga ekki eftir. Tengslamyndun skiptir gríðarlegu máli þegar komið er með merkið í fyrsta sinn inn á stærri markað og þá skiptir máli að merkið hafi sterkan heildarsvip og sé samkvæmt sjálfu sér í öllum þáttum út á við.

Hversu mikill undirbúningur er fyrir sýningu sem þessa?

Fyrir sýningu sem þessa þarf að vinna mikla og nákvæma undirbúningsvinnu en þegar maður kynnir nýtt merki á þessum vettvangi er mikilvægt að huga að öllum smáatriðum. Trúverðugleiki og fagmennska skiptir lykilmáli hvað varðar alla þætti í ferlinu. Hönnunarhlutinn er auðvitað stór og það sem minn fókus ætti í raun aðallega að liggja, en hönnunin á flíkunum sjálfum og línunni í heild er í raun lítill hluti þess sem myndar heildarmyndina. Það þarf að huga að framleiðslu, verðlagningu, markaðssetningu ásamt heilmikilli rannsóknarvinnu hvað varðar staðsetningu merkisins á markaði. Ég hef alla tíð verið fullviss um að það gangi ekki upp til langtíma að vera einn í svona rekstri og hef ávallt einsett mér það að velja rétta fólkið til að vinna með mér að uppbyggingu merkisins. Við undirbúning þessarar sýningar fékk ég til liðs við mig Ásu Ninnu Pétursdóttur sem hefur víðtæka reynslu á sviði kaupmennsku í tísku og hefur sótt fjöldamargar sýningar á borð við þessa og verið hinum megin við borðið sem innkaupandi. Það skiptir öllu máli að raða í kringum sig réttu fólki á hverja vígstöð því þannig nær maður enn lengra.

Býður íslenskt landslag uppá að fatahönnuðir lifi góðu lífi í dag eða er enn langt í land?

Það hefur verið öflug grasrót í fatahönnunarsenunni á Íslandi síðustu ár en markaðurinn er of lítill hér á landi til að hún nái flugi. Að mínu mati er mikilvægt að bransinn nái að taka næstu skref, til dæmis inn á nýja markaði og að hér á Íslandi verði til alvöru tískuiðnaður. Það hefur verið mikil gróska í faginu hér á landi en flest fatahönnunarfyrirtæki eru í einyrkjastarfsemi eins og er og fagið þyrfti meira fjármagn og sérfræðikunnáttu í fleiri þáttum en hönnuninni sjálfri. Hér á Íslandi útskrifast nýir fatahönnuðir á ári hverju en fæstir fá vinnu við fagið. Við höfum því í höndunum gríðarlegt magn af hæfileikaríkum hönnuðum og þó nokkur fyrirtæki sem hafa alla burði til að geta náð langt á stærri vettvangi. Í nágrannalöndum okkar er tískuiðnaðurinn arðbær grein sem tekin er alvarlega og hlúað er að og á Norðurlöndunum til að mynda eru skapandi greinar í hæstu sætum þegar kemur að stærstu útflutningsgreinum. Það væri áhugavert að skoða hvað þarf til að ná Íslandi á sama stað.

Framundan er RFF þar sem þú munt sýna línuna þína fyrir árið 2017, hverjar eru áherslurnar í línunni?

Ég vil helst ekki uppljóstra neinu um það sem ég kem til með að sýna á RFF í ár og vil að sýningin komi á óvart en línan verður í anda merkisins og þess sem það hefur staðið fyrir hingað til. Ég legg áherslu á prjón í minni hönnun og hef unnið með íslenska ull og blandað henni saman við andstæð efni. Ég festi mig þó alls ekki við hana og hef einnig boðið upp á fíngerðar prjónaflíkur úr ítalskri merino ull og svo vel ég alltaf nýtt efni í hverri línu sem ég blanda inn á nýjan hátt. Í hönnunarferlinu spái ég mikið í áferðum, lita- og efnasamsetningum sem og fíngerðum smáatriðum.

Hvar færð þú helst innblástur við hönnun þína?

Ég sæki innblástur frá öllu og engu. Ég þróa mikið af mínum efnum sjálf og það er vinna sem ég er stöðugt í og tek með mér milli lína. Annars getur upphaf og innblástur að hugmyndavinnu verið mjög tilviljanakennt. Það getur verið litasamsetning sem ég rekst á á förnum vegi, persóna eða atriði úr bíómynd eða jafnvel íslenskir stjórnmálamenn. Ég er alltaf með augun opin fyrir innblæstri og vinn svo rannsóknarvinnu út frá því sem kveikir mestan neista. Eftir að hafa unnið rannsóknarvinnu byrja ég á efnunum og leyfi þeim svolítið að stýra ferlinu. Ég vel saman liti og geri prjónaprufur á prjónavél og velti fyrir mér sniðum og smáatriðum. Það má síðan segja að ég leyfi efnunum sjálfum að ákveða hvað verði úr þeim en sniðin hef ég einföld svo að efnin fái að njóta sín.

Hvað hefur viðburður eins og RFF að segja fyrir íslenskan fatahönnuði?

Það er mikilvægt að hátíð á við RFF sé haldin hér til að sýna þá grósku sem fyrirfinnst í fatahönnunarsenunni á Íslandi, bæði sem heild en um leið hversu fjölbreytt hún er.