*

Heilsa 18. mars 2017

Vilja gera Mjölni að MMA miðstöð heimsins

Bardagafélagið Mjölnir flutti á dögunum í nýtt húsnæði í Öskjuhlíð Reykjavíkur. Markmið Mjölnismanna er nú að gera Mjölni að miðstöð MMA í heiminum.

Hörður Guðmundsson

Bardagaíþróttir hafa vaxið í vinsældum undanfarin ár, en segja má að bardagafélagið Mjölnir eigi mestan heiður að þeirri þróun hér á landi. Félagið var stofnað árið 2005, þegar aðskildir æfingahópar sameinuðu öfl sín. Með stofnun Mjölnis var markmiðið að skapa vettvang fyrir blandaðar bardagaíþróttir og brasilískt Jjiu-jitsu. Nú er markmiðið að gera Ísland að miðstöð MMA-æfinga í heiminum.

Úr loftkastalanum í Keiluhöllina

Æfingaraðstaða Mjölnis var lengi vel í Vesturbæ Reykjavíkur, í húsnæði sem kallast Loftkastalinn. Nú á dögunum flutti félagið sig þó í Öskjuhlíðina, en þar hefur verið vígð hálfgerð bardagahöll í húsnæði sem áður hýsti Keiluhöllina.

Flutningarnir tóku þó talsverðan tíma, en samkvæmt Jóni Viðari Arnþórssyni, tók það tæplega tvö ár að flytja sig úr Vesturbænum í nýju aðstöðuna.

„Árið 2015 var ljóst að starfsemi Keiluhallarinnar væri lokið og þá fórum við að leita að fjárfestum sem hefðu áhuga á að umbreyta húsnæðinu og koma með okkur í þetta ævintýri. Það tók tæplega tvö ár og það var oft óljóst hvort að þetta myndi takast.“

Haustið 2016, munaði litlu á að allt færi í vaskinn. Jón Viðar segir Gunnlaugsson bræður þó hafa komið til bjargar. „Á sama tíma og húsið átti að fara á uppboð, að þá komu Arnar Gunnlaugsson og co. og björguðu þessu. Sýslumaðurinn var í raun mættur á svæðið og það voru um 20 manns sem vildu bjóða í húsið.“

Stefna á 3000 iðkendur

Þegar búið var að tryggja húsnæðið, var stefnan sett á að opna aðstöðuna í janúar 2017. Iðkendur, starfsmenn og aðrir sjálfboðaliðar komu sér saman og rifu það sem eftir var af Keiluhöllinni. Fagfólk sá svo um að sinna öðrum verkum, til að mynda uppsetningu búningsklefanna. Framkvæmdirnar gengu almennt vel fyrir sig, en þrátt fyrir það tókst ekki að opna aðstöðuna fyrr en í lok febrúar.

Alls æfa um 1400 einstaklingar hjá Mjölni, en samkvæmt Jóni Viðari gæti nýja aðstaðan auðveldlega rúmað 3000 iðkendur. „Við setjum stefnuna á 3000 iðkendur, en markmiðið er að sjá 2000 iðkendur næsta vetur. Við höfum verið að bæta framboðið og því ættu allir að geta fundið sér eitthvað við hæfi.“

Samkvæmt heimasíðu Mjölnis er til að mynda hægt að velja Brasilískt Jiu-Jitsu, Kickbox, box, blandaðar bardagaíþróttir, víkingaþrek og yoga. Mjölnir hefur einnig lagt mikið upp úr því að efla unglingastarf, auk þess sem fyrirtækjum stendur til boða að sækja þjónustu hjá ISR, en þar er starfsfólki kennt á öryggistök og neyðarvörn.

Alheimsmiðstöð MMA

Jón Viðar, segir Mjölni sífellt setja sér ný og háleit markmið, en eitt af þessum markmiðum er að gera Mjölni að alheimsmiðstöð MMA. „Ég hef ferðast víða um heiminn og hvergi hef ég séð flottari aðstöðu fyrir MMA. Markmiðið er bara að gera þetta að miðstöð MMA á heimsvísu og sjá MMA verða að þjóðaríþrótt Íslendinga.

Sú vegferð hefur nú þegar hafist, en þegar blaðamaður Viðskiptablaðsins heyrði í Jóni Viðari var Joanne Calderwood, sem er rísandi stjarna í íþróttinni, einmitt mætt til Íslands til þess eins að æfa í Mjölni. „Conor kemur líklegast bráðlega og svo munum við ráðast í markaðssetningu hérna heima og erlendis.“

Erlendir gestir ættu í raun aldrei að þurfa að yfirgefa húsnæðið, enda eru alls 6 æfingasalir, tvær nuddstofur, verslun, bar og hárgreiðslustofa á staðnum. Jón bendir þá einnig á að bardagaíþróttirnar séu hannaðar fyrir alla. „Það eru allir velkomnir til okkar og við viljum að fólk komi og kynni sér hvað þessar íþróttir ganga út á. Hér er fjölskyldustemming og þeirri stemmingu viljum við viðhalda.“

Stikkorð: Heilsa  • Mjölnir  • Líkamsræktarstöðvar