*

Hitt og þetta 20. ágúst 2019

Vilja Joe Rogan sem stjórnanda kappræðna

Yfir 200 þúsund manns vilja fá hlaðvarpsstjörnuna Joe Rogan sem stjórnanda kappræðna fyrir forsetakosningar BNA.

Yfir 200 þúsund manns hafa nú skrifað undir áskorun þess efnis að yfirstjórn kappræðna fyrir forsetakosningar Bandaríkjanna á næsta ári velji hlaðvarpsstjörnuna Joe Rogan sem einn af spyrlum.

Joe er uppistandari og fyrrum bardagamaður, en í dag er hann þekktastur fyrir hlaðvarp sitt, The Joe Rogan Experience. Hlaðvarpið er eitt það vinsælasta í heimi með yfir milljón áhorfendur/hlustendur á hvern þátt, en í því tekur hann um þriggja tíma viðtöl við allt frá stjórnmálamönnum til uppistandara, háskólaprófessora og fólks úr atvinnulífinu.

Hlaðvarpið hóf göngu sína fyrir rétt tæpum 10 árum, og þættirnir eru orðnir yfir 1.300 talsins í dag.

Mikla athygli vakti þegar Elon Musk, forstjóri Tesla, reykti maríúana í beinni útsendingu í viðtali hjá Joe í september síðastliðnum, en auk þess tók hann nýlega viðtal við Bernie Sanders, einn af frambjóðendum í forvali Demókrata fyrir forsetakosningarnar á næsta ári.

Til stendur að forsetakosningar verði haldnar í Bandaríkjunum þann 3. nóvember á næsta ári. Forval Demókrata er sem áður segir þegar hafið, en forval Repúblíkana, flokks Donalds Trumps forseta, er enn ekki formlega hafið.

Stikkorð: Joe  • Rogan