*

Tíska og hönnun 18. október 2018

Vill byggja stærstu íbúð á Manhattan

Roman Abramovich, eigandi Chelsea vill breyta þremur íbúðahúsum á Manhattan í tæplega 3.000 fermetra íbúð.

Rússneski milljarðamæringurinn og eigandi Chelsea, Roman Abramovich, hyggst breyta þremur íbúðarhúsum á Manhattan í eina íbúð, á sex hæðum, sem alls verður tæplega 3.000 fermetrar. Húsnæðið yrði stærsta heimili á Manhattan.

New York Post segir Abramovich hafa varið um 10 milljörðum króna í kaup á húsnæðinu og að endurbætur á því muni að líkindum kosta annað eins. 

Fasteignirnar eru við East 75 street númer 9, 11, 13, og 15, nærri Central Park á Manhattan, en ekki á að nýta fjórðu fasteignina í íbúðina. Þar verður að finna að minnsta kosti fimm svefnherbergi og tólf baðherbergi.

Abramovich er ekki á flæðiskeri en Forbes segir hann eiga yfir 11 milljarða dollara, um 1.300 milljarða króna að því er Forbes greinir frá.

Engu síður hefur hann ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu. Beiðnum hans um dvalarleyfi í Sviss og Bretlandi var nýlega hafnað. Abramovich er sagður hafa fært eignarhald húsanna á fyrrverandi eiginkonu sína, Dasha Zhukova í september. Yfirvöld í Bandaríkjunum tóku nýlega yfir íbúðarhús á Manhattan þar sem Zhukova og börn hennar og Abramovich hafa búið. Íbúðin er í eigu Oleg Deripaska, aðaleiganda Rusal, en stjórnvöld í Bandaríkjanum hafa lagt hendur á eignir hans vegna tengsla við Vladimir Pútín, forseta Rússlands.