*

Sport & peningar 27. maí 2014

Vín Alex Ferguson boðin upp

Ein vínflaska Ferguson seld á tæpar átján milljónir króna og fleiri uppboð eru á döfinni.

Margir þekkja fyrrverandi knattspyrnustjórann ástsæla Alex Ferguson, en færri vita að hann hefur að geyma mjög myndarlegt safn af vínum. Á laugardaginn var hluti af vínum Ferguson boðinn upp í Hong Kong, en sagt er frá þessu á China Daily.

Á uppboðinu voru boðin upp vín úr einkasafni Ferguson fyrir tæpar fjórar milljónir Bandaríkjadala eða um 440 milljónir íslenskra króna. Safn Ferguson inniheldur talsvert af sjaldgæfum og eftirsóttum vínum og var dýrasta flaskan á laugardag boðin upp á tæpar átján milljónir íslenskra króna. Fleiri uppboð eru á döfinni, en auk uppboðs í London þann 5.júní er fyrirhugað að bjóða upp vín Ferguson á netinu um miðjan mánuðinn.

Ferguson fékk áhuga á að safna vínum eftir heimsókn til Frakklands árið 1991 og segist hann hafa notað áhugamálið til að dreifa huganum frá því annríki og pressu sem fylgir knattspyrnustjórastöðunni. Eftir að Ferguson hætti þjálfun fannst honum góður tími til að selja hluta af safninu.

Má því ætla að Ferguson sé ekki á flæðiskeri staddur, þrátt fyrir að hafa sagt skilið við knattspyrnuþjálfun.

Stikkorð: Vín  • Alex Ferguson