*

Matur og vín 22. nóvember 2019

Vínekra da Vinci endurvakin

Vínekra Leonardo da Vinci´s hefur verið endursköpuð og nýtt da Vinci vín er komið á flöskur.

Minningu Leonardo da Vinci er haldið á lofti fyrir margar sakir; listsköpun, uppgötvanir og vísindastarf. Alla jafna er drykkjuskapur hins vegar ekki meðtalið þegar kostir fjölfræðingsins mikla eru upptaldir.  Það kann hins vegar að breytast nú þegar vísindamenn hafa endurskapað vínekru da Vinci í upprunalegri mynd. 

Tímaritið Economist greinir frá þessu og segir da Vinci hafa verið mikinn unnanda góðra vína eða „hins guðdómlega vökva þrúgunnar“ eins og hann kallaði gjarnan sopann í ritum sínum. 

Svo mikill vínunnandi var Leonardo da Vinci að Ludivoco Sforza, hertoginn af Mílan, greiddi da Vinci fyrir málverkið, Síðasta kvöldmáltíðina, með vínekru í héraðinu árið 1498. Ekran var í ræktun í hundruð ára eftir dauða da Vinci en vínviðurinn brann í Síðari heimsstyrjöldinni í kjölfar sprengjuárás bandamanna árið 1943. Þar með var borin von að dreypa aftur á víni af sömu þrúgu og Leonardo gerði fyrir 500 árum. Þar til nú. 

Árið 2007 ákvað vínfræðingurinn Luca Maroni að hefja uppgröft á svæðinu í von um að finna rætur gamla vínviðarins. Uppgröfturinn bar á árangur og ræturnar sem Maroni fann voru rannsakaðar í bak og fyrir í Università degli Studi in Milan. Tveimur árum seinna tókst að finna út þrúgutegundina, Malvasia di Candia Aromatica, sem enn er í ræktun í Ítalíu. 

Þá tók við ítarleg leit af þrúgu með sömu erfðabyggingu eða því sem næst. Að því loknu var ekran endursköpuð eins nákvæmlega og hægt var með tilliti til jarðvegs og uppsetningu. Ekran da Vincis var svo opnuð árið 2015 og fyrsta uppskeran var klár haustið 2018. 

Fyrstu 330 vínflöskurnar verða boðnar upp í desember núna í ár og kannski binda væntanlegir kaupendur vonir við að sopinn muni efla hugmyndaauki og ímyndunarafl og veita þannig innsýn í hugarheim meistarans. 

Stikkorð: vínekra  • vínflöskur  • Leonardo da Vinci