*

Matur og vín 19. júlí 2013

Vínflaskan á 1,2 milljónir í uppboði

Vín eftir frægan víngerðarmann seldist á metverði í uppboði í London á miðvikudaginn.

Ellefu flöskur af Richebourg víni frá árinu 1970 voru á miðvikudaginn slegnar á samtals 13,5 milljónir króna á uppboði í London. Vínið er handverk víngerðarmannsins heitins Henry Jayer og segir í frétt Sotheby's uppboðshússins að safnarar hafi slegist um flöskurnar.

Flöskurnar, allar voru seldar saman, fóru á 72.850 pund sem samsvarar eins og áður segir um 13,5 milljónum króna, eða um 1,2 milljón á hverja flösku. Ef flytja ætti vínið hingað til lands myndi hver flaska, með lögboðnum gjöldum, kosta um 1,7 milljón króna.

Fleiri dýrgripir vínlistarinnar voru seldir á uppboðinu, þar á meðal Leoville Lascases frá árinu 2.000, en það vín seldist á 2.230 pund, andvirði um 410.000 króna. Þetta vín hefur stöku sinni sést í íslenskum veiðihúsum og í betri veislum hér á landi.

Stikkorð: Vín  • Henry Jayer  • Richebourg