*

Matur og vín 8. janúar 2017

Víngæði falla í verði

Hvernig er best að búa sig undir vinstri stjórn, fari svo ólíklega að vinstri menn nái samstöðu um áætlun gegn hagvexti?

Arnar Sigurðsson

Því er til að svara að auðvitað eru áhyggjur lesenda réttmætar enda þekkt að þjóðinni vegnar vel þá vinstri mönnum vegnar illa. Þannig hefur kaupmáttur víngæðinga aldrei aukist jafn hratt eins og á síðasta ári sem hófst á því gæfuspori að áfengi var réttilega flokkað sem matur með 11% virðisaukaskatti. Blessuð krónan okkar hefur svo þróast nákvæmlega eins og við var búist undir hrakspám vinstri manna, það er til styrkingar. Gengisstyrking og lægri virðisaukaskattur vegur þyngra eftir því sem vín eru vandaðri og því má segja að gæði hafi fallið í verði á árinu.

En aftur að spurningunni um vín við hæfi á hamfaratímum. Góð vín, til dæmis 1er Cru frá Burgundy, eru auðvitað tilvalin til að fagna góðu gengi, hvort heldur er á krónu eða öðru og nauðsynleg til að drekkja sorgum sínum þegar illa árar.

Um áramót er í senn við hæfi að drekka eitthvert sérstakt vín, nú eða heita þess að uppgötva á komandi ári vín sem fellur undir þá skilgreiningu. En hvað er það sem gerir vín þannig sérstök að þau kalli á einhverjar pælingar í huga vínáhugamanns?

Margþætt í nefi. Lykt er partur af bragði en bragðleysi er eitthvað sem allir hafa upplifað samhliða kvefi án þess að samhengið sé að fullu ljóst. Lykt getur verið sæt eða þurr og svo framvegis. Fjölþætt lykt er ávísun á að eitthvað merkilegt sé í glasinu.

Fylling. Oft er talað um að vín bragðist útþynnt eða að miðjuna vanti sem er stílfæring. Vín geta verið fínleg þó svo að þau hafi til að bera mikla fyllingu og dýpt í bragði.

Jafnvægi milli ávaxtar og sýru sem er nauðsynleg til að tryggja ferskleika í víninu. Að auki þurfa tannín að vera mjúk sem ljær víninu mjúka áferð.

Lengd. Eftirbragð bestu vína getur varað lengur en trú þín á eilíft líf.

Við þetta mætti svo bæta að bestu vín heims bera upprunaeinkenni þeirrar ekru sem vínviðurinn vex í og segja má að þar byrji flækjustigið. Í flestum tilfellum láta neytendur nægja að horfa til upprunalands eða héraðs. Dæmi um slíkt er þegar smekkur manna leitar til Spánar, nánar tiltekið til Rioja. Á norðurhluta Ítalíu eru héröð á borð við Piemonte og ekrur við smáþorp á borð við Barbaresco og Barolo sem gefa af sér svokölluð einnarekruvín.

Eftir tvö frábær ár, 2014 og 2015, var útlitið ekki bjart fyrir franska vínbændur á þessu ári. Frost í upphafi tímabils þegar sprotar vínviðarins eru við það að springa út, gerði út af við megnið af uppskerunni auk þess sem haglél fylgdu í kjölfarið. Samtals er uppskerubrestur víða í Champagne, Chablis og Cote d’Or á bilinu 40% til 90%.

Hlýindi í ágúst sem teygðu sig fram í september björguðu þó því sem bjargað varð og virðist sem uppskera verði þokkaleg í Bordeaux og Rhone.

Greinin birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins. Lesendur geta nálgast tímaritið hér.

Stikkorð: Vín  • Rauðvín