*

Matur og vín 4. janúar 2014

Vínglasið á 1,2 milljónir króna

Þrátt fyrir að peningar kaupi í fæstum tilfellum hamingju þá kaupa þeir gæði.

Fjárfesting í hrávörum er flestum Íslendingum framandi. Í dag eru vörukaup undanþegin gjaldeyrishöftum og þar með talið vín. Flestir vínframleiðendur eru þó lítt hrifnir af því að vín þeirra séu orðin að fjárfestingavörum og tapi sínu eiginlega hlutverki sem neysluvara. Sem dæmi má nefna að gangverð á tómri ChateauLafite flösku í Kína er um 300 evrur til falsara sem hiklaust fylla á og endurselja síðan sem upprunalega vöru.

Eðli málsins samkvæmt er slíkt vandamál fyrir þekkt vörumerki á borð við Lafite. Á meðfylgjandi línuriti má sjá verðþróun gæðavína á árinu sem er að líða. Ef skyggnst er undir yfirborðið hefur verð á allra dýrustu „blue chip“ Bordeaux vínum fallið en á móti hafa einstaka vín með hátt verðgildi hækkað lítillega. Enn einn vínsjóðurinn „London Vines“ leystist upp þegar í ljós kom að vín að andvirði 590 þúsund Sterlingspunda reyndust oftalin eignamegin. Hinsvegar leggst nú allt á eitt í hina áttina; uppskera hefur stórlega dregist saman bæði í Bordeaux og Bourgogne síðustu ár, samfara stórbættri víngerð, gjöfulu veðurfari og aukinni eftirspurn.

Að venju voru met slegin á árinu. Kassi af einu stórkostlegasta víni allra tíma, Romanée Conti 1978, var sleginn í Hong Kong á 476 þúsund Bandaríkjadali. Gróflega áætlað mætti skjóta á að glasið kostaði um 1,2 milljónir króna eftir hóflega tollafgreiðslu hér á landi. Fyrir áhugasama þá ráðleggja Vín & vindlar svokallaða „yfirvigt“ í 2010 árganginum í vel fljótandi eignasafni með þeirri baktryggingu að ef verðið hækki ekki muni eigendur glaðir geta drekkt sorgum sínum síðar meir.

 

 

Áramót, tímarit Viðskiptablaðsins, kom út á mánudaginn. Í blaðinu eru auk umfjöllunar um vín, viðtal við Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra, Ásdísi Kristjánsdóttur hagfræðing, Þorstein Baldur Friðriksson, stofnanda Plain Vanilla, og Hugleik Dagsson svo dæmi séu nefnd. Þá er umfjöllun um veiði, Kardashian-hagkerfinu gerð skil sem og launum helstu knattspyrnumanna. Að auki er margt, margt fleira....


Stikkorð: Vín