*

Bílar 8. maí 2013

Vinnuþjarkar framleiddir af lúxusbílamerki

Mercedes-Benz hefur bætt enn einum bílnum við bílaflotann. Í þetta skiptið er það vörubíllinn Arocs.

Róbert Róbertsson

Mercedes-Benz framleiðir ekki einungis vinsæla og vandaða lúxusbíla heldur mun þýski bílaframleiðandinn einnig stilla upp öflugu A-liði í atvinnubílaflokknum. A-liðið svokallaða samanstendur af vinnuþjörkunum Actros, Antos og Arocs sem allir verið útbúnir vélum sem standast EURO 6 mengunarstaðilinn.

Vörubíllinn Arocs er nýjasta viðbótinn í atvinnubílaflotann frá Mercedes-Benz en þessi vinnuþjarkur kemur á markað á næstu vikum. Arocs fylgir fast á hæla atvinnubílanna Actros og Antos frá Mercedes-Benz sem komu á markað 2011 og 2012 og hafa þegar fengið góðar viðtökur í Evrópu.

Arocs verður með mikilli veghæð og grindin verður hærri en venja er í vörubílum. Þá verður Arocs með meiri fjöðrunareiginleika og gefur þar af leiðandi mun meiri möguleika á að nota bílinn í allri vinnu utan vega m.a. við vegagerð, í húsgrunnum, í námum og annars staðar sem þörf er á.

Arocs verður boðinn í mörgum útfærslum, bæði tveggja, þriggja og fjögurra drifa.

Bílarnir verða frá 238 hestöflum upp í allt að 625 hestöfl og með burðargetu frá 18 tonnum upp í allst að 44 tonn. Arocs er umhverfismildur vinnubíll þrátt fyrir mikið afl og vinnugetu og verður m.a. útbúinn frá fyrstu framleiðslu með vél sem stenst EURO 6 mengunarstaðalinn en það er sá staðall sem mestur er í dag.

,,Arocs mun hafa getu og burði til að vinna utanvega og á krefjandi stöðum og fæst bæði með eða án framdrifs. Arocs verður mjög spennandi kostur fyrir íslenskan markað og sérstaklega fyrir verktaka sem er í snjómokstri, vegagerð eða annari verktakavinnu t.d. undir krana. Arocs verður hagkvæmur bíll í alla staði,“ segir Páll Halldór Halldórsson, sölustjóri atvinnubíla hjá bílaumboðinu Öskju, sem er umboðsaðili fyrir Mercedes-Benz á Íslandi. 

Stikkorð: Mercedes Benz  • Arocs