*

Tölvur & tækni 31. ágúst 2013

Vinsældir einkatölvunnar fara enn minnkandi

Spáð er tæplega 10% samdrætti í sölu á einkatölvum í heiminum í ár.

Sala á einkatölvum mun dragast enn meira saman í ár en áður var talið gangi spá markaðsrannsóknafyrirtækisins IDC eftir. Fyrirtækið spáir því nú að sala á einkatölvum muni vera 9,7% minni í ár en í fyrra. Í mars spáði IDC 1,3% samdrætti á milli ára og í maí gerði fyrirtækið ráð fyrir 7,8% samdrætti.

Vaxandi vinsældir snjallsíma og spjaldtölva ráða mestu um dvínandi hylli einkatölvunnar, að því er segir í frétt Reuters. Hingað til hefur eftirspurn eftir einkatölvum í löndum eins og Kína vegið upp á móti minnkandi sölu í Bandaríkjunum og Evrópu en það er að breytast.

IDC spáir því að sala á spjaldtölvum muni aukast um 57,7% milli ára og að seldar verði 227,4 milljónir spjaldtölva á árinu. Áður hafði IDC spáð því að seldar spjaldtölvur yrðu 229,3 milljónir í ár.

Stikkorð: Snjallsímar  • Spjaldtölvur  • Einkatölvur