*

Bílar 28. desember 2020

Vinsælustu bílafréttirnar 2020: 1-5

Rafbílar voru nánast allsráðandi í toppsætunum yfir mest lesnu bílafréttir ársins 2020.

Rafbílar voru fyrirferðamiklir á topplista Viðskiptablaðsins og Eftir vinnu yfir mest lesnu bílafréttir ársins. Þó má þar einnig finna klassískan Land Rover Defender. Hér að neðan eru þær fimm bílafréttir sem mesta athygli lesenda vöktu.

1. 1,9 sekúndur í hundraðið

Þegar fólk heyrir núll í hundrað á innan við tveimur sekúndum hugsa flestir vafalaust um baðvog. Það gildir hins vegar einnig um Tesla Model S Plaid, sem kynnt var í byrjun október, en það tryllitæki skilar af sér litlum 1.100 hestöflum og er drægnin 837 kílómetrar að sögn forstjórans Elon Musk. Byrjað verður að taka við pöntunum á komandi ári og er áætlað að hann komi til með að kosta um 20 milljónir króna.

2. Tesla í samstarf við N1

Á árinu birtust Teslur á götum borgarinnar nánast eins og gorkúlur á sumardegi. Ljóst var að ráðast þyrfti í uppbyggingu á hleðslustöðvum víða um land og í maí tilkynntu Tesla á Íslandi og N1 að félögin hefðu undirritað samstarfssamning um uppbyggingu hraðhleðslustöðva á hringveginum. Það vakti mikla athygli lesenda.

3. Polestar 2 á markað í sumar

Þegar kemur að rafbílum fær Tesla oftar en ekki mesta umfjöllun en í Kína hefur framleiðandinn Geely einsett sér það að keppa við framleiðandann. Sagt var frá því í mars, þegar faraldurinn stóð sem hæst víðast hvar, að stefnt væri að því að Polestar 2 kæmi á markað um sumarið en sá inniheldur tvo rafmótora og rafhlöðu sem skilar 402 hestöflum og 500 kílómetra drægni. Er honum ætlað að keppa við Tesla 3.

4. Defender stekkur 30 metra í Bond mynd

Gömul skrítla hljóðaði á þann veg að spurt var hví Bretar hefur aldrei tekið upp á því að framleiða tölvur? Svarið var að sjálfsögðu því þeir hafa enn ekki fundið út úr því hvernig þeir láta þær leka olíu. Sú skrítla tengist fjórðu mest lesnu fréttinni aðeins óbeint en þar var sýnt frá því hvernig Land Rover Defender stenst ýmsar þolraunir við tökur á nýjustu ræmunni um njósnara hennar hátignar.

5. Rafbíll sem hleður sig sjálfur

Það hljómar hálfgerð eilífðarvél að eiga rafbíl sem hleður sig sjálfur en það er meðal þess sem verkfræðingar Sono Motors hafa unnið að frá stofnun framleiðandans árið 2016. Frumgerð Sono Sion er búin sólarrafhlöðum sem geta veitt 30 kílómetra drægni á dag á sólríkum stöðum. Nú þegar hafa 10 þúsund manns látið taka frá bíl fyrir sig þótt endanleg afurð hafi ekki enn litið dagsins ljós.

Hægt er að nálgast fréttirnar sem enduðu í 6.-10. sæti með því að smella hér.