*

Bílar 21. apríl 2019

Vinsælustu bílarnir 1994

Árið 1994 var lélegt í bílasölu, en það var árið sem Toyota RAV4 jepplingurinn kom fyrst á markað.

Róbert Róbertsson

Árið 1994 var mjög rólegt ár í bílasölu á Íslandi. Alls seldust 5.400 fólksbílar hér á landi þetta ár sem var tæplega 10% samdráttur frá árinu 1993 og enn meiri samdráttur ef miðað er við árið 1992 en þá seldust um 7 þúsund fólksbílar hér á landi.

Toyota var mest selda bílamerkið árið 1994 og hefur trónað á toppnum yfir mest seldu bíla landsins allar götur síðan. Hyundai var í öðru sæti yfir mest seldu bíla ársins 1994 og Mitsubishi og Nissan lentu í þriðja og fjórða sæti. VOLVO 440/460 var mest selda bíltegundin í sínum stærðarflokki en í öðru sæti kom Toyota Carina. Salan var undir væntingum sem bílaumboðin hér á landi höfðu búist við.

Brautryðjandi í jepplingum

Toyota RAV4 kom á markað í fyrsta skipti árið 1994 og líklega átti enginn von á hversu vinsæll bíllinn yrði og því að þessi jepplingur yrði nánast brautryðjandi fyrir þessa tegund bíla. Japanski bílaframleiðandinn tók stórt skref með Rav4 sem reyndist heilladrjúgt skref enda varð bíllinn frumkvöðull fyrir jepplinga og lagði línuna má segja fyrir vinsældir þeirra.

RAV4 er sá jepplingur sem hefur selst mest í heiminum öllum síðan hann kom á markað fyrir 25 árum. Á síðasta ári seldust tæplega 840 þúsund eintök af RAV4 í heiminum. Fyrsta kynslóð RAV4 var kynnt árið 1994 sem lítill fjögurra manna jeppi búinn 2 lítra, 16 ventla vél með beinni innspýtingu.

Meðal staðalbúnaðar má nefna rafdrifnar rúður og spegla, tvær sóllúgur sem hægt er að taka úr, útvarp, kassettutæki, fjóra hátalara, samlæsingar á hurðum, vökva- og veltistýri, stafræna klukku og tvískipt aftursæti sem hægt er að halla aftur eða leggja fram. RAV4 var frumsýndur hér á landi hjá P. Samúelssyni sem þá rak Toyota umboðið og vakti strax mikla athygli fyrir nýjungar í hönnun og fyrst og fremst þessa stærð þ.e. jepplingsins.

Rafhugmyndabíll frá Honda

Fleiri spennandi bílar komu á markað árið 1994. Porsche frumsýndi nýjan 911 Cabriolet á bílasýningunni í Detroit í ársbyrjun 1994 og vakti þessi sportbíll mikla athygli, en hvenær gerir 911 það svo sem ekki. Honda kynnti fyrsta rafhugmyndabílinn sem fékk heitið EVX og þótti ákaflega framúrstefnulegur.

Cadillac kynnti framtíðarsýn sína í flokki lúxusbíla, Cadillac LSE, sem var afturhjóladrifinn með 3,8 lítra V6 vél með 24 ventla tækni. Þá var nýr Monte Carlo frá Chevrolet kynntur til leiks ásamt Mercury Premys, Chrysler Cirrus og Izusu Trooper blæjujeppa. Þeir hjá Chevrolet voru mjög spenntir að kynna hinn nýja Monte Carlo og það þótti tíðindum sæta að hann var með öryggispúðum fyrir ökumann og framsætisfarþega auk öflugrar V6 vélar.

Rússar og Suður-Kóreumenn létu ljós sitt skína

Nýir Volkswagen Polo, Ford Scorpio, Opel Tigra og Hyundai Accent komu allir á markað um haustið. Þeir voru sýndir á bílasýningunni í París. Hyundai Accent varð mjög vinsæll bíll og varð gríðarlega mikilvægur fyrir suðurkóreska bílaframleiðandann. Hann var á hagstæðu verði þótt hann hafi ekki reynst sá áreiðanlegasti á markaðnum.

Gárungarnir kölluðu hann Hyundai Accident en Hyundai gat nú samt brosað á endanum því bíllinn seldist mjög vel víða um heima þar á meðal hér á landi. Ford Scorpio náði einnig ágætum vinsældum. Hann var í boði með fimm misöflugum bensínvélum 2,0-2,9 lítra sem skiluðu 115 til 207 hestöflum.

Rússar sýndu líka á bílasýningunni í París þetta ár að þeir væru ekki að baki dottnir með nýjum Lada bíl sem þeir kölluðu 110 og fór í framleiðslu nokkrum mánuðum síðar.

Umfjöllunina má lesa í heild í 25 ára afmælistímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift á sérstöku afmælistilboði hér eða pantað tímaritið.

Stikkorð: Chevrolet  • Detroit  • Porsche  • Lada  • Pétur Óli Pétursson  • Toyota RAV4  • Bílaumboðið