*

Ferðalög & útivist 9. janúar 2014

Vinsælustu ferðamannaborgirnar eru jafnan umsetnar þjófum

Ef fólk er á leið til Róm, London, Washington eða Prag er vissara að hafa varann á.

 Vinsælustu ferðamannaborgir í heimi eru oft jafnframt þær hættulegustu þegar litið er til þjófnaða og rána.

Ofbeldisglæpum fækkar víða í heiminum. Í Bandaríkjunum hefur ofbeldisglæpum fækkað um 32% síðan 1990 og um 64% í stærstu borgunum. En um leið hefur ránum og þjófnuðum fjölgað og þá einna helst í vinsælustu ferðamannaborgum heims.

Á vefsíðunni Stuff.co.nz eru tilgreindar borgir sem eru þekktar fyrir vasaþjófnaði og rán. Algengustu fórnarlömbin eru grandalausir ferðamenn. Sumar borgirnar eru svo slæmar að þegar ferðamenn koma á svæðið fá þeir jafnvel ráðleggirnar um hvernig verja skuli veski og töskur og fá útlistanir um aðferðir þjófanna svo þeir geti verið enn betur á verði.

London: Í London eru glæpamennirnir sem herja á ferðamennina alræmdir fyrir lúmskar aðferðir sínar. Töskur hafa horfið úr fínum sófum á lúxushótelum á borð við Ritz og Michelin-veitingastaði svo ekki sé talað um í lestir og strætisvagna.

Róm: Í Róm er fólki ráðlagt sérstaklega að ganga ekki með tösku sem snýr út á götu vegna ræningja á mótorhjólum. Í Vatíkaninu eru ferðamenn í sérstakri hættu vegna mannmergðar og líka vegna þess að allir eru önnum kafnir við að góna í allar áttir að skoða listaverk (og reyna að sjá páfann).

Prag: Um alla Prag eru viðvörunarskilti þar sem ferðamenn eru varaðir við vasaþjófum. Þeir eru skæðastir í troðnum strætisvögnum og á fjölförnum ferðmannastöðum þegar fólk er ekki nógu mikið á varðbergi.

Washington DC: Ólíkt öðrum vinsælum ferðamannaborgum í Bandaríkjunum, eins og New York og Boston, þá eru glæpagengi mikið vandamál í höfuðborg Bandaríkjanna og eru ferðamenn gjarnan fórnarlömb þeirra.

Stikkorð: Washington DC  • London  • Ferðalög  • Róm  • Svik og prettir  • Prag