*

Hitt og þetta 14. nóvember 2013

Virgin America flytur 9 chihuahua hunda til New York

Of margir chihuahua hundar eru í Kaliforníu og því hafa þeir meðal annars fengið aðstoð Virgin America við að komast til nýrra eigenda.

Virgin America bauð hópi af chihuahua hundum flugfar frá Kaliforníu til New York í gær. Þetta er í fimmta skiptið sem flugfélagið aðstoðar gæludýraeftirlitið í San Francisco en tilgangur flutningsins er að koma hundunum til nýrra eigenda í New York.

Offramboð er af Chihuahua hundum í Kaliforníu og eru hundaathvörf í Kaliforníu yfirfull af hundategundinni. Þeir eru því gjarnan sendir út fyrir fylkið og til nýrra eigenda. Samstarfið við Virgin America hófst árið 2010 þegar flugfélagið ákvað að vekja athygli á offramboðinu á chihuahua hundum í Kaliforníu.

New York þykir tilvalin borg fyrir tegundina þar sem íbúðir eru litlar og hentugar fyrir chihuahua hunda. John MacLeod, aðstoðarforstjóri Virgin America, segist í samtali við The New York Times vera hæstánægður að geta aðstoðað gæludýrasamtökin og einnig að draga fram rauða dregilinn fyrir litlu gestina sem ferðast með þeim í leit að nýjum heimilum.

Á vefsíðu The New York Times má lesa nánar um málið hér

Stikkorð: Hundar  • Gleði  • Gaman  • Fallegt  • Chihuahua  • Virgin America