*

Menning & listir 9. september 2013

Vísar – húsin í húsinu í Hafnarborg

Myndlistarsýningin Vísar – húsin í húsinu hefur opnað í Hafnarborg.

Á sýningunni Vísar – húsin í húsinu eru ný verk eftir myndlistarmennina og arkitektana Elínu Hansdóttur (f.1980), Ilmi Stefánsdóttur (f. 1969), Marcos Zotes (f. 1977) og Theresu Himmer (f. 1976). Sýningarstjóri er Anna María Bogadóttir en hugmynd hennar að þessari sýningu var valin úr innsendum tillögum síðastliðið haust þegar kallað var eftir tillögum að haustsýningu 2013 í Hafnarborg.

Um sýninguna segir eftirfarandi:

Vísar – húsin í húsinu er sýning þar sem staður og rými fá nýja merkingu og hægt er að stökkva fram og aftur í tíma gegnum birtingarmyndir af húsinu í húsinu. Verkin enduspegla umbreytingar og afhjúpa margslungið samhengi listsköpunar og umhverfismótunar. Um leið eru tengsl sögu og samtíma ljós í sýningarrými sem er í stöðugri umbreytingu og allt í senn; einka og opinbert, raunverulegt og ímyndað, varanlegt og hverfult. Verkin á sýningunni kallast á við verk bandaríska listamannsins Gordon Matta-Clark (1943-1978), Conical Intersect frá árinu 1975, sem er hluti sýningarinnar en þetta er í fyrsta sinn sem verk eftir Matta-Clark er sýnt hér á landi. Á sýningunni Vísar skapast þannig áhugavert samspil milli verka Matta-Clark og nýrra myndlistarverka, sem eiga það sameiginlegt að velta upp spurningum um mörk og áhrif hins byggða umhverfis, upplifun okkar af því og hlutverk okkar í mótun þess." 

Nánar um dagskrá safnsins má finna á heimasíðu safnsins

Stikkorð: Myndlist