*

Menning & listir 31. október 2015

Viskí sötrað í rakarastólnum

„Þetta er hálfgerð heilsulind fyrir karlmenn,“ segir Jón Aðalsteinn Sveinsson.

Ólafur Heiðar Helgason

Jón Aðalsteinn Sveinsson er eigandi hársnyrtistofunnar Quest – Hair, Beer & Whisky Saloon. Orðið „hársnyrtistofa“ nær ef til vill ekki að fanga nægilega vel þá þjónustu sem er í boði á Quest, því þar er hægt að láta fara vel um sig með glas af bjór eða viskí – eða hvoru tveggja – á meðan kollurinn og skeggið eru snyrt. Jón, sem segist betur þekktur sem Nonni Quest, hefur um 20 ára reynslu í faginu. 

Opið er á Quest frá 10 til 18, en Nonni segir auglýstan happy hour vera milli 17 og 18. Um það bil einu sinni í mánuði hafa verið haldnir tónleikar á Quest, og verða svokallaðir off ­venue tónleikar á  stofunni í tengslum við Iceland Airwaves ­hátíðina fram undan.

Nonni segir viðtökurnar við nýja staðnum hafa verið frábærar. Um sé að ræða hálfgerða heilsulind fyrir karlmenn. Konur séu auðvitað velkomnar, en einhvern veginn höfði Quest meira til karla. „Það  er  yfirleitt  kvöð  fyrir  karlmenn  að  fara  í  klippingu,“ segir Nonni. „En að geta komið og fengið sér viskí – þeir eru að koma með vin, þeir koma fyrr og eru virkilega að njóta þess að láta dúlla svolítið við sig. Þær vilja kannski frekar fara í nudd og eitthvað í þeim dúr. Þetta er bara okkar spa, að sitja og spjalla. Og fá sér einn stífan eða einn kaldan,“ segir Nonni glaðbeittur að lokum.

 

Fjallað er um Quest – Hair, Beer & Whisky Saloon í Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem er nýkomið út. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.