*

Bílar 22. desember 2018

Vistvænn vagn til reynslu á Íslandi

Crossway LE CNG láginnstigs vagninn er sérstaklega hannaður til að takast á við álagið í þungum borgarakstri.

Róbert Róbertsson

Iveco Bus Crossway LE CNG, knúinn jarðgasi eða metan hauggasi, er nú til reynslu hér á Íslandi. Vagninn vann titilinn ,,Sustainable Bus of the Year 2018" á síðustu Busworld sýningu í Kortrijk í Belgíu. Crossway LE CNG láginnstigs vagninn er sérstaklega hannaður til að takast á við álagið í þungum borgarakstri, sem og í akstri milli bæja, samhliða því að minnka vistspor þessarar starfsemi.

Þessi nýi vagn heldur öllum þeim eiginleikum sem hafa gert Crossway að viðmiði í sínum flokki bæði hvað varðar rekstrarkostnað og notagildi, og nú bætast við kostir vistvænnar driflínu. Ávinningurinn er sérstaklega áhrifamikill þegar litið er á fjölda sótagna í útblæstri og hávaðamengun. Við bruna á metangasi er þéttni sótagna nálægt núlli og NOx losun minnkar um meira en þriðjung samanborið við dísilolíu," segir Sveinn Mikael Sveinsson, sölustjóri Iveco hjá BL.  

Kolefnisfótspor minnkar um allt að 95%

Hann segir að hljóðmengun sé einnig helminguð miðað við núverandi E6 mótora sem þýðir minna álag á ökumann, farþega og allt nærumhverfi. ,,Síðast en ekki síst þá minnkar kolefnisfótspor þessarar starfsemi um allt að 95% við bruna á metan hauggasi og er því stórt skref í vistvænum orkuskiptum í fólksflutningum á landi. Óvenjusnjöll hönnun Iveco á gasgeymunum á stóran þátt í því að þessi vagn hefur útlit og ytri mál sem eru nánast þau sömu og núverandi vagnar í notkun hér heima. Gasgeymarnir eru felldir inn í þak vagnsins þannig að þeir auka ekkert við heildarhæð ökutækisins og minnka á sama tíma það loftrými sem þarf að hita upp svo vel fari um farþega. Sömuleiðis þýðir þessi snjalla hönnun að þyngdarpunktur vagnsins verður mikið lægri og hann því stöðugri í akstri," segir Sveinn. Crossway LE CNG er drifinn af nýrri útgáfu af Iveco Cursor 9 aflvél sem skilar 360 hestöflum og stærð gastankanna leyfir allt að 600 km akstur milli áfyllinga.

Sveinn bendir á að samkvæmt niðurstöðum þýsku orkustofnunarinnar DENA sé kolefnisspor bifreiða sem brenna metan hauggasi á pari við kolefnisspor bifreiða sem ganga fyrir rafmagni sem framleitt er með vatnsog vindorku. Framleiðslukostnaður metanvagna er þó, enn sem komið er, mikið lægri en rafdrifinna vagna og má því vænta þess að þessi nýi valkostur veki athygli þeirra sem eru í forsvari fyrir fólksflutningum hérlendis.